Dæmi­sögur – vöru­hönnun á 21. öld

Silent Village – Kaffiborð Brynjar Sigurðarson ©Fabrice Gousset/Courtesy Galerie kreo

Dæmisögur – vöruhönnun á 21. öld

Kjarvalsstaðir

-

Vöruhönnuðir fást við að búa til vörur og skapa upplifun. Þeir greina þörf og tækifæri auk þess sem framleiðsluferli og umhverfisáhrif hafa sitt að segja um efnisval og útfærslu. Í vestursal Kjarvalsstaða eru samankomin nokkur framúrskarandi verkefni sem hvert um sig endurspeglar með skýrum hætti ólík viðfangsefni vöruhönnunar.

Þannig fæst innsýn í helstu strauma og stefnur í faginu hér á landi undanfarin ár. Á sýninguna hafa verið valdir hönnuðir og fyrirtæki sem vinna hver út frá sinni áherslu. Þessar áherslur eru upplifun, handverk, staðbundin framleiðsla, efnisrannsóknir, hreyfanleiki og fjöldaframleiðsla. Um leið og verkefnin endurspegla fjölbreytileika fagsins sýna þau tækifærin sem samfélaginu standa til boða með því að nýta krafta skapandi hugsunar. Í hönnunarfaginu er uppi stöðug krafa um nýjungar og hraða.

Verkefnin á sýningunni eru þó ekki af þeim toga heldur eru þau dæmisögur um þróun sem hefur átt sér stað yfir langt tímabil. Að baki þeim liggur raunveruleg og djúpstæð þekking á viðfangsefninu. Rannsókn - Brynhildur Pálsdóttir, Ólöf Erla Bjarnadóttir, Snæbjörn Guðmundsson
Leitin að íslensku postulíni er samstarfsverkefni hönnuðar, keramikers og jarðfræðings. Markmið verkefnisins er að leita uppi íslensk jarðefni sem hægt er að umbreyta í postulín. Helsti munurinn á postulíni og öðrum leir er að leirinn er oftast nýttur beint úr jörðu en postulín er samsett efni, ljóst að lit. Þá er brennslustig postulíns hærra en jarðleirs sem gerir það að verkum að hægt er að gera sterkari og þynnri hluti. Frumblanda postulíns er úr þremur jarðefnum, kaolínleir, kvartsi og alkalífeldspati. Á Íslandi finnst kvarts í töluverðum mæli í hreinu formi. Kaólín finnst víða, bæði á virkum og kulnuðum jarðhitasvæðum, en yfirleitt mjög blandað öðrum efnum. Alkalífeldspat finnst hér hins vegar nánast hvergi óblandað. Á Íslandi verður því að leita annarra hráefna sem komið geta í stað hinnar hefðbundnu postulínsblöndu ef búa á til íslenskt postulín. Vinnan hefur því falist í því að taka fjölbreytt sýni af hentugum íslenskum jarðefnum, gera tilraunir með þau og rannsaka. Hér er það ferðalagið frekar en áfangastaðurinn sem er í brennidepli. Handverk - Brynjar Sigurðarson
Veturinn 2009 dvaldi Brynjar Sigurðarson um tíma í vinnuskúr sjómanns á Vopnafirði og kynnti sér hefðir í handverki og efnisval tengt sjómennsku. Í framhaldinu tók hann að yfirfæra aðferðir sjómannsins við að binda saman net í handverk sem hefur fagurfræðilegt gildi fremur en nokkuð annað.

Verk Brynjars hafa gjarnan óskilgreint hlutverk. Form þeirra og efnisval ber með sér ljóðrænar tengingar. Í þeim er leitað eftir jafnvægi með ólíkri áferð og samsetningu. Hlýtt, loðið skott á móti kaldri, glansandi borðplötu. Tamið form og ótamið eru stuðlar og höfuðstafir hönnuðarins. Heildarmyndin og smáatriðin skapa smám saman stafróf. Hægt og bítandi verður það að tungumáli sem dreifist á ýmis verkefni.

Verkin sem unnin eru á Íslandi eru hrá en öðlast fágun erlendis. Dæmi um þetta eru húsgögnin sem Brynjar hefur unnið í Listaháskóla Íslands og svo fyrir Gallerie kreo í París, sem og prikin sem hann hefur unnið fyrir Spark Design Space og seinna með Swarovski í Wattens í Austuríki. Fjöldaframleiðsla - Sigga Heimis
Árið 1999 hannaði Sigga Heimis fyrsta hlutinn fyrir IKEA. Síðan þá hefur hún öðlast gríðarlega þekkingu og innsýn inn í neysluvenjur fólks og framleiðsluferli hluta.

Í hönnunarferlinu koma nokkrir mótandi þættir við sögu. Euro-vörubrettið er mikilvægur áhrifavaldur en á það þurfa vörurnar að passa og raðast upp. Hjá IKEA þarf varan að standast ákveðið próf hvað varðar gæði, notkun, sjálfbærni, verð og fagurfræði. Varan þarf að fá lágmarks einkunn á öllum þessum sviðum til þess að komast í framleiðslu. Því hærri einkunn því meiri líkur á að varan fari í framleiðslu.

Árið 2000 kynnti IKEA svokallaðan IWAY staðal. Krafa er gerð um að framleiðsluaðilar axli ábyrgð hvað varðar laun og vinnutíma, samfélagslega ábyrgð, öryggi á vinnustað og umhverfisáhrif svo eitthvað sé nefnt. Nú hafa önnur fyrirtæki tekið upp þennan staðal og hann orðinn mikilvægt innlegg í betri viðskiptahætti.

Eins og sjá má er að mörgu að huga áður en vara fer í fjöldaframleiðslu. Kröfurnar hafa aukist og lífsmunstur fólks er sífellt að breytast. Þetta er einmitt viðfangsefni Siggu í dag sem hefur nú snúið sér í meira mæli að hönnunarstjórnun. Staðbundin framleiðsla - Tinna Gunnarsdóttir
Tinna Gunnarsdóttir hefur um langt skeið unnið með íslenskum framleiðslufyrirtækjum og handverksfólki. Verkin hafa ýmist verið gerð sem einstakir hlutir eða framleidd í takt við eftirspurn. 

Sem hönnuður rannsakar Tinna umhverfi sitt með hjálp hversdagslegra nytjahluta.Viðfangsefni hennar eru jöfnum höndum einkarými heimilisins eða í náttúrulegu samhengi. Hún setur efni og tækni í óvæntar aðstæður og skapar þannig ferskt sjónarhorn, útvíkkaða upplifun – skemmtilega brenglað samhengi. 

Íslenskt landslag hefur síðastliðin ár haft mikil áhrif á meðvitund hennar og rýmisskilning sem hún miðlar í gegnum efnislega hluti eða með hugmyndafræðilegum hætti í myndböndum og texta. 

Upplifunarhönnun - Unnur Valdís Kristjánsdóttir
Flothettan kom fyrst á markað árið 2011. Síðan þá hefur hún öðlast eigið líf, óháð þeim sem að baki henni standa. Sá heimur sem hún hefur opnað er heimur slökunar, samveru og náttúruupplifunar. Fimmtán sundlaugar á Íslandi bjóða nú upp á svokölluð Samflot og ætla má að hundruð manna stundi fljótandi slökun í skipulögðum samflotum um land allt í hverri viku.

Varan hefur leitt til nýsköpunar innan ferðaþjónustu og heilsugeirans sem bjóða upp á flot og vatnsslökun í ýmsum útgáfum. Einnig hafa orðið til flotviðburðir sem flokkast undir svokallað Heilsudjamm, þar sem áherslan er á boðefnabætandi athafnir, veitingar og samveru í vatni. Þá hefur tilurð hennar hvatt til skemmtilegrar nýyrðasmíðar. Flothettan er dæmi um einfalda en snjalla hugmynd sem byggir á rótgróinni baðmenningu Íslendinga. Um leið er hún í takt við tíðaranda núvitundar og heilsumeðvitundar. Flothettan er einnig dæmi um hugmynd sem er fylgt vel eftir, gefinn góður tími og takinu sleppt í frjálst flæði. 

Hreyfanleiki - Össur
Fyrirtækið Össur var stofnað á Íslandi árið 1971 og er nú orðið leiðandi á sviði alþjóðaheilbrigðistækni. Það hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur með það að markmiði að bæta hreyfanleika fólks með tækni, rannsóknum og nýsköpun. Hjá fyrirtækinu starfa tæplega þrjú þúsund starfsmenn í um tuttugu löndum, sem allir hafa lagt sitt að mörkum við að 
ná frábærum árangri og gera sýn fyrirtækisins að veruleika. Össur hefur gert fólki kleift að yfirstíga líkamlegar hindranir, njóta sín til fulls og öðlast betra líf. 

Pro-Flex® gervifóturinn er nýjasta afurð fyrirtækisins og fyrsti fóturinn í nýrri kynslóð koltrefjafóta. Eiginleikar hönnunarinnar lýsa sér í að hreyfigeta gervifótarins eykst yfir 80% og spyrnukraftur í hverju skrefi um 90%, sé miðað við staðlaðan gervifót. Þetta leiðir til eðlilegra göngulags sem er mjög mikilvægt til að viðhalda heilbrigðu stoðkerfi. Þeir sem misst hafa annan fótinn eru til dæmis margfalt líklegri til þess að þróa með sér slitgigt í hné eða aðra kvilla á heilbrigða fætinum þar sem meira mæðir á honum. Hinni nýju hönnun er ætlað að taka á þeim vanda..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Sigríður Sigurjónsdóttir

Umfjöllun fjölmiðla

Boðskort