Saga Hafn­ar­húss

Hafnarhús

Í Hafnarhúsi er lögð áhersla á sýningar á framsækinni og tilraunakenndri list eftir viðurkennda innlenda og alþjóðlega samtímalistamenn og ungt og upprennandi hæfileikafólk. Hafnarhúsið er heimkynni Errósafnsins og þar má alltaf ganga að sýningum listamannsins vísum. 

Hafnarhúsið stendur við gömlu höfnina í elsta hluta Reykjavíkur, þar sem frá örófi alda var bátalægi bæjarins og fyrsta bryggja hans. Húsið teiknaði Sigurður Guðmundsson arkitekt, einn af frumkvöðlum íslenskrar byggingarlistar, í samvinnu við Þórarin Kristjánsson hafnarstjóra á árunum 1933-39 og stækkun þess árið 1957-58.

Það var endurgert til að hýsa starfsemi Listasafns Reykjavíkur frá 1998-2000 af arkitektastofunni Studio Granda. Hafnarhúsið hýsir verk úr safneign listamannsins Errós sem hefur ánafnað Reykjavíkurborg stórt safn listaverka sinna og bóka, en auk þess eru þar settar upp margvíslegar sýningar á samtíma myndlist. 

Húsið var upprunalega byggt sem skrifstofu- og vörugeymsluhús Reykjavíkurhafnar og reist í nokkrum áföngum á mikilli landfyllingu sem gerð var við höfnina á árunum 1913-17. Það var á sínum tíma ein stærsta bygging landsins og var vandað mjög til byggingarinnar sem ber stíleinkenni hins alþjóðlega módernisma, sem þróaðist á millistríðsárunum í Mið-Evrópu, m.a. út frá hinum þekkta skóla Bauhaus í Þýskalandi. 

Árið 1998 var haldin arkitektasamkeppni um endurgerð byggingarinnar fyrir Listasafn Reykjavíkur sem þurfti orðið aukið húsrými – ekki hvað síst vegna stórhuga listaverkagjafar Errós til Reykjavíkurborgar árið 1989, og var safnið opnað formlega í apríl árið 2000 þegar Reykjavík var ein níu menningarborga Evrópu. 

Verðlaunatillagan kom frá arkitektastofunni Studio Granda þar sem arkitektarnir Margrét Harðardóttir og Steve Christer tóku útgangspunkt í sögu staðarins.

Til suðurs, upp af trébryggjunni sem lá hér forðum virkaði Bryggjuhúsið við Vesturgötu sem formlegt borgarhlið Reykjavíkur, en þar var lengi opið port í gegnum miðju hússins og hafði sú kvöð fylgt byggingu þess árið 1862 að gangur skyldi vera að bryggjunni sem ævinlega yrði opinn og frjáls umgangur um. Bryggjuhúsinu hefur í áranna rás verið breytt nokkuð og portinu lokað árið 1927, en enn má sjá ummerki fornrar grjóthleðslu bryggjuendans við norðurhlið þess. Til merkis um mikilvægi staðarins í Reykjavík ganga öll húsnúmer borgarinnar út frá þessum stað. 

Við endurgerð Hafnarhússins er minnið um gömlu bryggjuna vakið upp með ás sem sker skáhallt í gegnum gömlu bygginguna og opnar aftur tenginguna við höfnina og hafið. Aðalinngangur og meginæð listasafnsins vísa þannig á nýjan hátt í hið horfna borgarport og hina gömlu líflínu borgarinnar við umheiminn. 

Bygging

Upprunalegt hlutverk Hafnarhússins sem iðnaðarhúsnæðis endurspeglast í ytra formi þess þar sem byggingin er tiltölulega lokuð út á við. Samkvæmt stíleinkennum hins alþjóðlega módernisma er sótt í rennilegt formtungumál lystiskipa og flugvéla, og sneitt hjá öllu skrauti en áhersla lögð á notkun byggingarinnar auk samspils láréttra og lóðréttra lína eins og sjá má á upphleyptum línum umhverfis glugga sem undirstrika skipan þeirra í lárétta borða á útveggjum og lóðréttum bogadregnum útskotum á norðurhlið.

Stórar vöruhurðir á austur- og vesturhliðum vitna um fyrri umferð vörubifreiða þvert í gegnum húsið en við endurgerð byggingarinnar hafa þær ásamt öðrum upprunalegum hurðum á jarðhæð verið látnir halda sér, nokkuð sem gefur óvenjulega möguleika á beinni innsýn af götunni inn í einn stærsta sýningarsal safnsins.

Erró i

Notkun hússins í dag er undirstrikuð með máluðum flötum í hvítum eða gráum lit, en aðalinngangur Listasafnsins er skorinn út úr suðurhliðinni þar sem varlega undið skyggnisblað úr steinsteypu yfir dyrum úr gleri vekur athygli.

Viðmót

Inn af anddyrinu og þvert í gegnum húsið liggur gólf klætt borðum úr harðviði. Rýmið er frekar þröngt og opið upp á aðra hæð, en veggir og upprunalegar burðarsúlur eru klæddar heitvölsuðu stáli sem gefur afar sérstaka upplifun og leiðir hugann að stórkarlalegum skipahöfnum nútímans.

Stigar upp á efri hæð snerta ekki viðargólfið, heldur hanga á steinsteyptu gólfi annarrar hæðar, en umlykjandi veggir þeirra eru sléttpússaðir, hvítmálaðir og dregnir fínlegri, nánast ógreinanlegri sveigju. Margslungin birtingarmynd rýmisins er undirstrikuð enn frekar með því að hluti stálveggjanna á ganginum er opnanlegur út í innra port byggingarinnar. Hægt er að umbreyta rýminu að hluta eða öllu leyti og draga fram láréttar eða lóðréttar línur þess að vild, til dæmis upp til himins úr portinu og þvert um ganginn inn í fjölnotarýmið.

Leikur Studio Granda að gömlu og nýju, grófu og fínlegu, beinni birtu og óbeinni skilar sér í afar sérstöku andrúmslofti sýningarsalanna sex beggja vegna portsins, sem stefna hver á sinn hátt sögu hússins við myndlist samtímans – ýmist hvítmálaðir eða í grófri, ómeðhöndlaðri steinsteypu og með ferkantaðar eða áttkantaðar burðarsúlur í undirliggjandi hnitakerfi byggingarinnar. Setustofa safnsins liggur á enda bryggjuássins á annarri hæð með útsýni yfir innsiglingu Reykjavíkurhafnar sem býður hins vegar upp á síbreytilegar lifandi myndir skipanna, hafsins og fjallanna við sjóndeildarhring. 

Viðurkenningar

Icelandic Environmental Services Association Award (2001). Blueprint Architecture Awards 'Best Public Building Refurbishment', tilnefning (2001). European Union Prize for Contemporary Architecture – Mies van der Rohe Award, tilnefning (2001). Viðurkenning Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra fyrir framúrskarandi hönnun á aðgengi (2000). 

Myndir: Dennis Gilbert, 2000
Myndir: Dennis Gilbert, 2000

Arkitektar

Sigurður Guðmundsson byggingarmeistari (1885-1958) er einn af frumkvöðlum íslenskrar byggingarlistar. Sigurður fylgdi í kjölfar Guðjóns Samúelssonar arkitekts og nam við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn á árunum 1915 til 1925.

Hann lauk aldrei fullnaðarprófi en var engu að síður einn áhrifamesti erindreki nýrra strauma í byggingarlist á Íslandi, allt frá norrænni klassík til fúnksjónalisma og módernisma með áherslu á einfaldleika og listræna formsköpun. Sigurður stofnaði fyrstu einkareknu arkitektastofuna á Íslandi og þar stigu sín fyrstu spor margir af helstu arkitektum landsins. 

Helstu verk: Barnaskóli Austurbæjar (1924-30). Elli- og hjúkrunarheimilið Grund (1928-30). Stúdentagarðar við Hringbraut „Garður” (1932-34). Tryggvagata 17 – núverandi Hafnarhús Listasafns Reykjavíkur (1933-39 og 1957-58). Vinnustofa Ásmundar Sveinssonar – núverandi Listasafn ASÍ, Freyjugötu 41 (1933-35). Ljósafossvirkjun, stöðvarhús (1935-37). Sjómannaskólinn (1942-45). Þjóðminjasafn Íslands (1945-52). Íbúðarhús að Ásvallagötu 14 (1928), Laufásvegi 70 (1927) og 75 (1929), Freyjugötu 41 (1933), Garðastræti 41 (1929), Smáragötu 16 (1931), Sóleyjargötu 11 (1931) og 29 (1932) og að Freyjugötu 46 (1931).    Studio Granda er ein þekktasta arkitektastofa landsins. Hún var stofnuð árið 1987 af arkitektunum Margréti Harðardóttur (1960-) og Steve Christer (1959-) sem luku námi frá Architectural Association í London. Studio Granda hefur vakið verðskuldaða athygli á alþjóðlegum vettvangi fyrir djörf og framsýn verk sem bera með sér sterkar tilvísanir í íslenska menningu og landslag samtímis því að vinna með minni úr alþjóðlegri byggingarlistasögu allt frá grískri antík til norræns módernisma.

Stofan hefur m.a. verið tilnefnd til Mies van der Rohe-verðlaunanna, European Union Prize for Contemporary Architecture, hlotið Nordic Sheet Metal Award for Architecture ásamt Sjónlistaverðlaununum og verk birt í The Phaidon Atlas of Contemporary World Architecture. Studio Granda var tilnefnd til hinna virtu Pritzker Architecture Prize verðlauna árið 2002. 

Helstu verk: Ráðhús Reykjavíkur (1987-92). Hæstiréttur Íslands (1993-96). Höfðabakkabrú (1994). Hafnarhús Listasafns Reykjavíkur, endurgerð (1998-2000). Íbúðarhús að Skrúðási (2000-04). Viðskiptaháskólinn á Bifröst – skipulag, aðalbygging, rannsóknarsetur o.fl. (2001-07). Laugalækjarskóli, viðbygging (2001). Vogaskóli, viðbygging (2005-07). Sveitasetur að Hofi á Höfðaströnd (2003-07).   

  • Texti eftir Guju Dögg Hauksdóttur, fyrrv. deildarstjóra byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur (2009). 

Ítarefni

Um listamanninn