Sagna­brunnur - Ásmundur og bókmenntir

Sagnabrunnur - Ásmundur og bókmenntir

Sagnabrunnur - Ásmundur og bókmenntir

Ásmundarsafn

-

Ásmundur Sveinsson (1893–1982) fór mismunandi leiðir í listsköpun sinni og sótti m.a. innblástur í helgisögur, goðsagnir, Íslendingasögur og þjóðsögur. Á þessari sýningu gefur að líta 20 höggmyndir í eigu Listasafns Reykjavíkur sem vísa allar með einum eða öðrum hætti í bókmenntarfinn og eru til vitnis um þann mikla sögumann sem Ásmundur Sveinsson var.

Meðal verka á sýningunni er hið magnaða verk Helreiðin en Ásmundur sagði m.a. um það: ,,Þetta er draugurinn frá Hel, stríðsguðinn. Hann er auðvitað á hesti úr Hel. Þegar ég gerði fyrstu skissurnar að Helreiðinni hafði ég þjóðsöguna um Djáknann á Myrká í huga. En svo fannst mér ég þurfa að sleppa konunni og þá varð úr þessu Helreiðin, sótt í Eddu: Hel á allt.

Allt er vígt dauðanum, blóm, jörð og menn.“

Verkin á sýningunni eru unnin á árunum 1922-1968 og sýna flest tiltekna atburði. Hver mynd er ákveðið tímaskeið oftast það dramatískasta og áhrifamesta úr hverri sögu. Ásmundur velur dauðastund Grettis úr Grettissögu í verkinu Dauði Grettis, í verkinu Davíð og Golíat sýnir Ásmundur þegar Davíð þeytir völunni í höfuð Golíat og í verkinu Móðir mín í kví kví sjáum við þegar barnið birtist móðurinni. Ásmundur Sveinsson var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Hann var á meðal þeirra sem kynntu fyrir Íslendingum nýja formskrift í myndlist 20. aldar. Verkum hans var ekki alltaf jafn vel tekið, en með tímanum hafa þau fest sig í sessi sem ein af birtingarmyndum íslenskrar sagnahefðar, samfélags og náttúru á 20. öld.

Ásmundur hélt alla tíð tryggð við þá hugmynd að listin ætti erindi til fólksins og ætti heima á meðal þess. Hann var kallaður alþýðuskáldið í myndlist og án efa á þessi hugsjón rætur að rekja til lífsafstöðu hans, ekki síður en höggmyndahefðarinnar. Ásmundur Sveinsson myndhöggvari ánafnaði Reykjavíkurborg verk sín ásamt heimili sínu eftir sinn dag. Ásmundarsafn í Sigtúni var opnað formlega vorið 1983 þannig að nú eru 30 ár síðan safnið opnaði. Þá eru 120 ár frá því Ásmundur Sveinsson fæddist þann 20.maí n.k. en af því tilefni verður frítt inn í safnið þann dag..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Listamenn

Boðskort