Richard Mosse: Hólm­lendan

Richard Mosse: Hólmlendan

Richard Mosse: Hólmlendan

Hafnarhús

-

Hólmlendan er fjörutíu mínútna myndbandsverk sýnt á sex risaskjám í stórum sal. Að auki er til sýnis úrval stórra ljósmynda úr myndböndunum. Myndirnar eru teknar í austurhluta Kongó. Upptökurnar eru magnþrungnar og óraunverulegar, í bleikum tónum, og sýna stríðshörmungarnar í landinu. 

Grunnurinn að verki Mosse er hugmyndin um að ofgnótt ímynda frá stríðshrjáðum svæðum hafi gert okkur ónæm fyrir þeim hörmungum sem stríð hefur í för með sér.

Hræðilegar myndir frá átakasvæðum víðs vegar um heiminn birtast svo reglulega á skjám okkar að oft sláum við þær einfaldlega út af borðinu sem enn eitt sjónrænt áreitið. Mosse varði nokkrum árum við myndatökur af mið-afrísku fólki og landslagi sem hefur orðið illa úti í stríðsátökum. Hann notaði aflóga innrauðar filmur sem voru hannaðar í hernaðarlegum tilgangi til að koma auga á skotmörk í felulitum. Þessar filmur nema ósýnilegt litróf og breyta grænum lit í skærbleikan, þannig að landslagið tekur á sig óraunverulegan, litskæran blæ. Mosse og samstarfsmenn hans, kvikmyndatökumaðurinn Trevor Tweeten og tónskáldið Ben Frost, komu sér fyrir meðal vopnaðra kongólskra uppreisnarmanna.

Afurðin, Hólmlendan, er bleik og heillandi, hryllileg og afar áhrifamikil sýning ímynda frá þessu stríðshrjáða svæði. Richard Mosse ferðaðist um austurhluta Lýðveldisins Kongó í fjögur ár (2010-14) og bjó í návígi við vopnaðar hersveitir á stríðshrjáðum svæðum þar sem ólík þjóðarbrot takast á og fjöldamorð og kerfisbundið kynferðislegt ofbeldi eru hversdagslegir hlutir. Þótt milljónir manna hafi verið myrtar í þessum átökum hefur alþjóðasamfélagið veitt þeim litla athygli. Þessi ósýnileiki er upphafspunkturinn í verkum Mosse. Hann snýr upp á hefðbundið raunsæi ljósmyndunar og skapar áhrifamiklar myndir með hörmungarnar í brennidepli. 

Þetta verk Mosse var frumsýnt á fimmtugasta og fimmta Feneyjatvíæringnum árið 2013, þar sem hann var fulltrúi Írlands. Hólmlendan veitir afar fagra og ásækna mynd inn í landsvæði í Afríku þar sem borgarastyrjöld, óróleiki og mannlegar hörmungar hafa staðið yfir í marga áratugi. Richard Mosse fæddist á Írlandi árið 1980 og býr í New York. Hann lauk listnámi frá Goldsmiths í London 2005 og ljósmyndanámi frá Yale listaskólanum 2008. Mosse hefur sýnt í Strozzi-höllinni í Flórens, Weatherspoon listasafninu í Greensboro, Bass listasafninu í Miami, Bethanien listasafninu í Berlín, Írsku menningarmiðstöðinni í París, Tate Modern safninu í London og á tvíæringnum í Dublin. Árið 2014 fékk hann Deutsche Börse ljósmyndaverðlaunin.

Sýningin er sett upp í samstarfi við RIFF, Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarstjóri/-ar

Yean Fee Quay

Boðskort