Mentor: Ásmundur Sveinsson og Carl Milles

Carl Milles og Ásmundur Sveinsson

Mentor: Ásmundur Sveinsson og Carl Milles

Ásmundarsafn

-

Í ár eru liðin 40 ár frá því að Ásmundarsafn var opnað. Í tilefni þeirra tímamóta lítum við til baka og skoðum verk Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) í samtali við verk hans helsta lærimeistara, Carls Milles (1875-1955).

Milles var einn fremsti myndhöggvari Svíþjóðar á 20. öld og var aðalkennari Ásmundar í þau sex ár sem hann stundaði listnám í Stokkhólmi. Milles bjó yfir mikilli tækni og fágun við listsköpun auk þess að miðla til nemenda sinna af þeirri yfirgripsmiklu þekkingu sem hann hafði á ólíkum liststílum og stefnum, fornri list og list ólíkra þjóða. Hann hvatti nemendur sína til að hafa öllum stundum námfýsi og fróðleiksþorsta að leiðarljósi. Milles hafði mikil áhrif á Ásmund sem sagði sjálfur að Milles hefði lokið upp fyrir honum formheimi listarinnar.

Í verkum Ásmundar sem valin hafa verið á sýninguna má finna hljómgrunn með verkum Milles. Þar má greina þau áhrif sem lærimeistarinn hafði á nemanda sinn, en einnig og ennfremur, hvernig Ásmundur meðtók þessi áhrif og lærdóm og þróaði á sinn hátt. Sýningin er unnin í samstarfi við Millesgården í Stokkhólmi og eru verkin á sýningunni eftir Carl Milles fengin að láni þaðan.

Ljósmynd af sýningunni Mentor: Ásmundur Sveinsson og Carl Milles
Carl Milles, Solglitter, 1918.
Ljósmynd af sýningunni Mentor: Ásmundur Sveinsson og Carl Milles
Ásmundur Sveinsson, Venus, 1925.

Ásmundur Sveinsson var fæddur að Kolsstöðum í Dalasýslu árið 1893 og var framan af ævi sinni sannur sveitapiltur. Hann bjó þar ásamt foreldrum sínum og stórum systkinahópi til 22 ára aldurs en í þá daga var Dalasýsla afskekkt byggð og lítið aðgengi að myndum eða listmunum. Vinnudagar voru langir við almenn sveitastörf, skepnuhald, heyannir, uppskeru og fleira. Þó var eitthvað í Ásmundi sem vakti með honum áhuga á listum en þrátt fyrir myndleysi í sveitinni ólst hann upp við hagleik og fagra hluti; faðir hans var góður smiður og móðir hans kunn fyrir vandaðan vefnað. Þetta hefur án efa haft áhrif á það að Ásmundur sýndi ungur áhuga á handavinnu og þá sérstaklega útskurði. Ásmundur þótti ekki efni í mikinn bónda og vissi það sjálfur manna best, en sótti gjarnan í sköpun, útskurð og mótun.

Árið 1915 flutti Ásmundur til Reykjavíkur og lærði tréskurð hjá Ríkarði Jónssyni myndskera næstu fjögur árin. Að sveinsprófi loknu hafði Ásmundur hug á að mennta sig frekar og efla með sér frjálsari listsköpun og myndmótun. Eftir skamma dvöl í Kaupmannahöfn, þangað sem hann hélt haustið 1919, lá leið hans til Stokkhólms. Haustið 1920 stóðst hann inntökupróf við Konunglegu listaakademíuna (Kungliga konsthögskolan) og hóf formlegt listnám undir handleiðslu Carls Milles sem hafði þá nýlega verið ráðinn prófessor við skólann.

Ljósmynd af sýningunni Mentor: Ásmundur Sveinsson og Carl Milles

Eftir Carl Milles liggur fjöldinn allur af höggmyndum en hann vann mörg stór verk í almannarými sem sjá má víðs vegar um Svíþjóð. Milles var stórhuga listamaður sem sótti innblástur í gríska og rómverska goðafræði og sænskan sagnaarf. Hann vann stóra skúlptúra úr efnum á borð við granít og brons sem gjarnan eru staðsettir í gosbrunnum, á háum stöplum eða súlum sem ber við himin í mikilfengleika sínum. Samspil goðsagnavera við dýr, svo sem höfrunga eða hesta, var algengt myndefni hans og hreyfingin var alltaf leiðarstef. Milles hlaut listmenntun sína í París, meðal annars hjá hinum merka franska myndhöggvara, Auguste Rodin, en áður hafði hann, líkt og Ásmundur, hlotið menntun í tréskurði. Milles var mikilvirkur kennari, fyrst við Listaháskólann í Stokkhólmi árin 1920-31 og síðar við Cranbrook-stofnunina í Bandaríkjunum árin 1931-45 þar sem hann var búsettur frá árinu 1929. Þar eru í dag varðveitt hans helstu verk frá síðustu æviárunum.

Samband Ásmundar og Milles var samband lærimeistara og nemanda – mentors og lærlings – en með þeim tókst einnig sterkt vinasamband og gagnkvæm virðing ríkti milli þeirra.

Ljósmynd af sýningunni Mentor: Ásmundur Sveinsson og Carl Milles
Ljósmynd af sýningunni Mentor: Ásmundur Sveinsson og Carl Milles

Sýningin er liður í samstarfi Millesgården og Ásmundarsafns sem eiga það sameiginlegt að vera söfn tileinkuð lífi og starfi listamannanna tveggja. Báðir lögðu þeir mikla áherslu á að listin ætti heima í almannarými og að þar nyti hún sín best þar sem flestir hefðu aðgang að henni. Ásmundur á flest útilistaverk í reykvísku borgarlandi auk þess sem þó nokkur verk hans er að finna víðar um landið. Verk Milles er jafnframt að finna á fjölmörgum stöðum í Svíþjóð og er hann sérstaklega þekktur fyrir magnaða gosbrunna sína og vatnaverur. Verk hans eru einnig að finna á fleiri stöðum í heiminum, þarf af flest í Bandaríkjunum þar sem hann bjó lengi og kenndi.

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarstjórar

Edda Halldórsdóttir og Sigurður Trausti Traustason

Umfjöllun fjölmiðla

Listamenn

Listamenn