Kjarvalsstaðir
-
Á sýningunni eru mörg sjaldséð verk, einkum frá fyrri hluta starfsævi Jóhannesar Sveinssonar Kjarval (1885-1972).
Á öðrum áratug síðustu aldar varð Kjarval fyrir áhrifum frá ríkjandi liststraumum í Evrópu, þar sem sundurgreinandi form og uppbrot sjónarhornsins voru meðal helstu einkenna ýmissa framúrstefnuhreyfinga, einkum kúbista og fútúrista. Í fyrstu námsferð sinni til London um áramótin 1911-1912 kynntist Kjarval fyrst stefnu fútúrista sem vakti áhuga hans. Frá London fór hann til náms í Kaupmannahöfn en þangað kom farandsýning á verkum ítölsku fútúristanna árið 1912 og ári síðar kom þangað sýningin Kúbistar og expressjónistar.
Þessar sýningar höfðu mikil áhrif á mótun framúrstefnunnar í Danmörku og Kjarval kynntist þar nýjustu straumum og stefnum í listum og heimspeki sem áttu eftir að hafa áhrif á fjölbreytt myndmál hans allt til loka ferilsins.
Kjarval var ekki bundinn á klafa ákveðins stíls eða hugmyndafræði heldur leitaði víða fanga og vann úr stefnum og stílum á persónulegan hátt. Titill sýningarinnar, Líðandin – la durée, vísar í kenningar franska heimspekingsins Henris Bergson (1851-1941) sem var vel þekktur meðal almennings og lista- og menntamanna í Evrópu og Bandaríkjunum í upphafi tuttugustu aldar. Kenningar hans um líðandina (la dureé) og lífsþróttinn (elan vital) voru grunnur að því sem kallast bergsonísk fagurfræði og framúrstefnulistamenn, einkum kúbistar og fútúristar sóttu í. Bergson velti tímaskynjun mannsins fyrir sér og setti annars vegar fram hugmyndir um tímann sem útreiknanlegan og mælanlegan tíma og hins vegar sem sálfræðilegan, innri tíma; líðandi. Það er sá tími sem maðurinn skynjar sem samfellt flæði, án þess að vera með augun stöðugt á klukkunni.
Bergson útskýrir líðandina þannig að lífið sé samfella minninga fortíðarinnar sem framlengist inn í nútíðina.
Á sýningunni er leitast er við að skoða hvernig áhrif hugmynda Bergsons birtast í myndmáli Kjarvals, frá námsárunum þar sem hann tekst á við tímann sem líðandi innan sömu myndar með því að brjóta upp formið og skapa þannig hreyfingu og flæði. Síðar sést hvernig Kjarval vinnur með tímann sem endurtekningu í landslagsmyndaröðum þar sem hann endurtekur myndefnið æ ofan í æ frá sama stæðinu. Með endurtekningunni nær Kjarval að kafa djúpt í skynjun sína á náttúrunni og tímanum sem hinum eiginlega rauntíma eða líðandi..
Sýningarskrá
Sýningarstjóri/-ar
Aldís Arnardóttir
Listamenn
Boðskort