Safn­fræðsla fyrir skóla

Skólahópur í Ásmundarsafni

Listasafn Reykjavíkur býður nemendum á öllum skólastigum upp á ókeypis safnfræðslu um allar sýningar í safnhúsunum þremur.

Safnkennarar Listasafns Reykjavíkur taka á móti hópum virka daga kl. 08.30–16.30. Hámarksfjöldi nemenda í hópi eru 25. Heimsókn með safnfræðslu tekur ríflega eina kennslustund en hægt er að aðlaga lengd eftir þörfum hópsins.

Safnkennari hvetur nemendur til að taka þátt í umræðum þar sem hver og einn fær tækifæri til að tjá sig um eigin upplifun og hlusta á aðra. Myndlist er kynnt sem leið til þess að eiga í samskiptum og kanna heiminn í kringum okkur.

Við fögnum öllum skólahópum sem vilja koma í safnið með eða án leiðsagnar safnkennara. Einnig er tekið á móti hópum í leiðsögn um útlistaverk. Við óskum eftir því að allir hópar láti vita af komu sinni með fyrirvara í gegnum bókunarkerfið. Varðandi sérstakar fyrirspurnir má hafa samband við okkur alla virka daga í síma 411 6400 eða í gegnum netfangið hopar.listasafn@reykjavik.is

Leikskólar

Safnfræðsla fyrir leikskólanema miðast við eldri árganga skólans sem oft eru að koma í fyrsta sinn á safn. Við mælum sérstaklega með heimsókn í Ásmundarsafn sem er áhrifarík bygging með góðu útivistarsvæði í höggmyndagarðinum í kring. Listaverk Ásmundar eru aðgengileg og hafa oft að geyma tilvísanir í hinar ýmsu sögur sem höfða til ungra barna. Verk Kjarvals eru alla jafna aðgengileg á Kjarvalsstöðum og verk Errós í Hafnarhúsinu. Að auki eru ýmsar tímabundnar sýningar í safnhúsunum sem kunna að höfða til leikskólabarna og passa inn í þau verkefni sem verið er að vinna að í leikskólanum.

Grunnskólar

Sýningar Listasafns Reykjavíkur eru spennandi námsvettvangur fyrir grunnskólabörn í skóla og frístund til að læra að njóta myndlistar og tengja daglegu lífi og viðfangsefnum í skólanum. Grunnskólum í Reykjavík er boðið upp á ókeypis rútuferðir fyrir 4. bekk á Ásmundarsafn, 6. bekk á Kjarvalsstaði og fyrir 8. bekk og valhópa í Hafnarhús.

Framhaldsskólar

Framhaldsskólahópar eru velkomnir í heimsókn að kostnaðarlausu og safnkennarar mæta þeim á þeirra forsendum í lifandi spjalli um listina og lífið. Viðfangsefni listamanna eru fjölbreytt og oft verða til verk sem kallast á við málefni líðandi stundar. Út frá myndlist er hægt að ræða stjórnmál, umhverfismál, stríð, loftslagsbreytingar, trúmál, kynvitund eða annað tengt samfélagi, daglegu lífi og samtíma. Frítt er inn á almennar sýningar og viðburði í safninu fyrir 18 ára og yngri.

Háskólar

Háskólahópar eru velkomnir í heimsókn með kennara þeim að kostnaðarlausu og safnkennarar mæta þeim í lifandi faglegu spjalli um listina og lífið. Einnig er tilvalið að skipuleggja vísindaferðir nemenda á sýningar safnsins. Stakir námsmenn fá afslátt af aðgöngumiðum og í boði er árskort á góðum kjörum fyrir 28 ára og yngri til þess að sækja allar sýningar og viðburði.

Fræðsluefni

Flökkusýningin

Flökkusýning

Grunnskólum stendur til boða að fá sérhannaðar fræðslusýningar að láni til sín í skólana.
Sjá meira