Sigurjón Ólafsson

Séra Bjarni Jónsson

Width:

66 cm

Height:

76.5 cm

Category:

Skúlptúr

Year:

1972

Verkið er staðsett við Dómkirkjuna. Sr. Bjarni Jónsson (1881-1965) var um langt árabil einn þekktasti borgari Reykjavíkur og sópaði að honum þar sem hann gekk hempuklæddur milli heimilis síns og kirkju. Hann var fastheldnari í trúarefnum en sumir aðrir kirkjumenn um hans daga sem aðhylltust nýguðfræðina, en kristindómur Bjarna var borinn uppi af heitri trú og andagift. Brjóstmyndin var sett á stall sjö árum eftir andlát hans. Í bók Björns Th. Björnssonar, Íslenzk myndlist II (bls. 199), segir: „Þegar Sigurjón vann að mynd séra Bjarna, kom þar, að honum þótti sér ekki nægjanlegt að horfa á hann sitjandi á stól inni í bragganum hjá sér. Lítill kirkjugöngumaður sjálfur, fannst honum hann nú þurfa að sjá guðsmanninn í réttum skrúða sínum og sönnu umhverfi. Og einhverja kyrra stund gengu þeir saman í dómkirkjuna, þar sem séra Bjarni steig skrýddur í stólinn, tók höndum saman yfir bríkina og flutti viðeigandi predikunarstúf yfir myndhöggvaranum sem hefur trúlega hlustað á, kvikur, með augunum. Þótt smáræði sé, sýnir þetta samt mæta vel með hverjum huga og hætti Sigurjón nálgast verkefni sín.“