Nína Tryggva­dóttir

Götu­mynd - Hús í Gríms­staða­holti

Width:

54 cm

Height:

45.6 cm

Category:

Málverk

Year:

1940

Þetta málverk Nínu Tryggvadóttur er meðal þekktustu verka hennar frá tímabilinu 1939–43 og það verk sem vakti einna mesta athygli á sýningu sem hún hélt í Unuhúsi við Garðastræti 1942. Um málverkið segir Hrafnhildur Schram: „Húsin og þökin eru hér fyrst og fremst túlkuð sem heilir og óbrotnir litfletir. Þetta eru kúbísk form, einfölduð og án smáatriða, glugga- og hurðalaus húsin líkjast fremur matadorhúsum en mannabústöðum. Hér er líka komið meira líf í litina og pensilskriftin orðin kvikari en fyrr. Nína hefur skilið að flæðandi ljós þarf að túlka með sterkum litum. Húsin á Grímstaðaholtinu eru fannhvít og okkurgul og húsaþökin skærrauð, skuggarnir dimmbláir og hafið djúpblátt. Hér tekst Nínu að spenna upp samleik ljóss og skugga, sterkar andstæður lita, og gæða þannig heildina lífi. Með sýningunni í Garðastrætinu markaði Nína stöðu sína í íslenskri myndlist ...“ (Hrafnhildur Schram: Nína í krafti og birtu, bls. 17). Í myndlistarsögu sinni segir Björn Th. Björnsson um myndir Nínu frá þessu skeiði: „Það er ráðandi þáttur í stíl hennar að skynja myndefnin í heilum litflötum; hún er þar hleðslumaðurinn, með steina sína og múrskeið í höndum. Hið sama er að segja um myndir hennar með húsaþyrpingum: þær eru röðun litblakka, þar sem svipur götunnar eða hverfisins ræðst ekki af gluggum, strompum og görðum, heldur af heildarsýn þessa manngerða landslags og „sálinni“ sem hún úr því les ... Um þessi verk Nínu þarf ekki að fara í neinar grafgötur: þau voru róttæk í innsta eðli sínu, uppgjör við það natúralíska blæbrigðamálverk sem helgaði enn almennan listasmekk landsmanna“ (Björn Th. Björnsson: Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld II, bls. 276, 278).