Ásmundur Sveinsson

Lífs­geislinn

Þrívíð verk

Height:

115 cm

Category:

Skúlptúr

Year:

1960

Ásmundur gerði Lífsgeislann í Reykjavík árið 1960 og er verkið unnið í járn, kopar og plexigler. Þetta er óhlutlæg mynd, sett saman úr þríhyrningi, hring og strengjum. Myndin stendur á hringlaga grunni, en upp úr honum vaxa hornalínuform sem bundin eru niður með strengjum, sem hafa að auki það hlutverk að afmarka rúmtak verksins. Í þessu verki leikur listamaðurinn sér með andstæður í formi og efni: Heil, lokuð form andspænis opnun í strengjaverki, og gegnsætt plast gegn myrku járni. Þetta verk sem er teiknað í rýmið er eitt fárra verka Ásmundar sem fyrst og fremst kallar á fagurfræðilega upplifun áhorfandans. „Þetta er nýjasta mynd mín,“ sagði Ásmundur í viðtali við Þjóðviljann, 21. ágúst 1960. „Ég kalla hana Lífsgeislann. Hún er tileinkuð hinum óþekktu höfundum á Íslandi, öllum, sem leituðu fegurðar og andríkis í einhverri mynd. Ég man eftir ömmu gömlu. Hún átti svo mikið skraut. Samt var hún fremur fátæk. Ég hafði hana í huga þegar ég gerði myndina Lífsgeislann. Í allri þessari fátækt vildi fólkið gera eitthvað fallegt, eiga eitthvað fallegt, og hafa eitthvað fallegt fyrir augunum.“