Ásmundur Sveinsson

Piltur og stúlka

Height:

145 cm

Category:

Skúlptúr

Year:

1931

Verkið er staðsett í höggmyndagarði við Ásmundarsafn. Verkið Piltur og stúlka gerði Ásmundur fyrst í París þegar hann dvaldi þar í fjóra mánuði árið 1931, en fullgerði síðan í Reykjavík sama ár. Myndin sýnir pilt og stúlku í innilegum faðmlögum og er einkar einföld í allri formgerð. Myndin var stækkuð, unnin í steinsteypu og sett upp í Hallargarðinum í Reykjavík árið 1955. Í þessu verki hefur listamaðurinn sagt skilið við stílfærslu og geómetríska einföldun fyrri verka og leggur nú áherslu á visst raunsæi: Pilturinn og stúlkan eru í venjulegum fötum auk þess sem líkamsbygging og öll hlutföll eru í fullu samræmi við hina hefðbundnu skólasýn. Myndin er efnismikil heild, en brotin upp með hreyfingu sem gengur í gegnum myndina alla, gæðir hana lífi og ljær henni innilegan blæ. Þó svo að þessi mynd sé umfram allt ljóðræn stemmning, verður hún að teljast ein af þeim myndum sem marka upphaf hins félagslega raunsæis í verkum Ásmundar á fjórða áratugnum. Hið látlausa nafn myndarinnar, Piltur og stúlka, minnir óneitanlega á samnefnda skáldsögu Jóns Thoroddsen, en ritverk Jóns voru mikið lesin á æskuheimili Ásmundar.