Sigurður Guðmundsson

Fjöru­verk

Width:

1300 cm

Height:

100 cm

Category:

Skúlptúr

Year:

2002

Verkið er staðsett við Sæbraut. Verkið Fjöruverk eftir Sigurð Guðmundsson samanstendur af allmörgum pússuðum granítsteinum, líkum þeim grjóthnullungum sem fyrir eru í fjörugarðinum meðfram Sæbrautinni. Steinarnir koma frá námum í Svíþjóð og hafa á leiðinni komið við á vinnustofu listamannsins í Kína þar sem þeir voru handslípaðir. Þaðan lá leiðin til Íslands og þeim var komið endanlega fyrir í haganlegri hleðslu í brimgarðinum við norðurströnd Reykjavíkur í svonefndri Rauðarárvík. Verkið lætur lítið yfir sér í fyrstu og vegfarendur sem eiga leið hjá þurfa að gefa því gaum. Fjöruverk var hlutskarpast af 147 tillögum í opinni hugmyndasamkeppni um útilistaverk í Reykjavík sem menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar efndi til árið 2002. Dómnefndin taldi verkið mjög sérstætt, lifandi og frumlegt og falla vel að uppbyggingu strandlengjunnar sem er hin nýja ásýnd Reykjavíkur. Listamaðurinn hefur látið þau orð falla um keimlíkt verk sem sett var upp í Svíþjóð að ætlun hans sé að draga athygli að því hvað allir og allt sé í raun einstakt ef við bara gefum okkur tíma til að taka eftir því.