Ríkarður Jónsson

Þorsteinn Erlingsson

Width:

55 cm

Height:

70 cm

Category:

Skúlptúr

Year:

1960

Verkið er staðsett á Klambratúni. Þessi brjóstmynd eftir Ríkarð Jónsson er af skáldinu ástsæla Þorsteini Erlingssyni (1845-1914). Ríkarður er þekktastur fyrir brjóstmyndir sínar og lágmyndir af samtíðarmönnum og útskurðarmuni, þ.á m. útskurðarverkið á dyrum Arnarhvols við Arnarhól í Reykjavík og fundarhamar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem var gjöf íslensku þjóðarinnar til nýstofnaðra Sameinuðu þjóðanna eftir síðari heimsstyrjöld. Björn Th. Björnsson greinir verk Ríkarðs í bók sinni Íslenzk myndlist. Þar er þrennt sem hann tekur til og einkennir listamanninn: Í fyrsta lagi er það djúp virðing fyrir handverkinu sem listrænni eigind. Þá telur Björn Ríkarð líta meira til forns menningararfs fremur en hinnar nýju framvindu í listum. Í þriðja lagi telur hann Ríkarð meta smá og oft táknræn lýsingaratriði myndar sem í sjálfu sér séu án verulegra krafna um formræna þátttöku þeirra í heild listaverks.