Width:
740 cm
Height:
700 cm
Category:
Skúlptúr
Year:
1972-1973
Staðsett við Hagatorg Árið 1969 samþykkti borgarráð Reykjavíkur að fela Sigurjóni Ólafssyni að gera tillögu að minnisvarða til að minnast stofnunar íslenska lýðveldisins 1944. Minnisvarðinn er myndaður af fimm misháum súlum úr koparplötum sem standa á steyptum sökkli. Hugmyndin um súluna er miðlæg í allri listsköpun Sigurjóns. Þar kemur margt til, hugsanlega öndvegissúluminnið, en einnig helgar súlur fornra þjóða á borð við indjána á vesturströnd Norður-Ameríku, auk þess sem súlan nýtist mörgum formbyltingarmönnum þegar einfalda skal myndmálið. Súlan er einnig ævafornt minni hins upprétta manns sem stendur einn og óstuddur andspænis víðáttum heimsins. Súlan birtist í konumynd úr steini sem Sigurjón gerði árið 1939, í Öndvegissúlunum við Höfða frá 1971 og ótal smærri verkum listamannsins. Íslandsmerkið er einnig eitt af mörgum „hópmyndum“ sem Sigurjón gerði um dagana. Hann gerði til dæmis fjölskyldumyndir árið 1939, ýmist úr einu formi eða fleirum. Síðar gerði hann abstrakt hópverk úr lóðréttum einingum sem þó tengjast innbyrðis með ýmsum hætti. „Íslandsmerkið er … nánari útfærsla á hóphugmyndinni þar sem samtengingin milli forma verksins er að vísu hætt að vera áþreifanleg en byggir eingöngu á samspili og samhrynjandi frjálsra forma í rýminu“ (Auður Ólafsdóttir: „Frá súlu til Íslandsmerkis.“ Íslandsmerki og súlur Sigurjóns Ólafssonar).