Width:
40 cm
Height:
51 cm
Category:
Skúlptúr
Year:
1950
Verkið er staðsett í höggmyndagarði við Ásmundarsafn. Myndina Gólfþvottur gerði Ásmundur í Reykjavík árið 1950 og hefur hún einnig gengið undir nafninu Ráðskonan. Myndin sýnir sitjandi kvenfígúru við gólfþvott. Verkið stangast um margt á við þróunarferil listamannsins. Inntak myndarinnar tengist atvinnulífsmyndum Ásmundar frá fjórða áratugnum og hvað formið varðar minnir hún á þau verk Ásmundar í lok fjórða áratugarins þar sem hann skrumskælir hina hefðbundnu skólasýn. Hér teygir listamaðurinn á venjubundinni anatómíu og riðlar hlutföllum. Þessi myndsýn Ásmundar minnir um margt á formskrift súrrealismans. Líkt og í fleiri myndum listamannsins er verkið í miklu jafnvægi: Samhverfar hendur koma þvert á samhverfa fætur konunnar, en vindingur líkamans gefur í skyn hreyfingu við þvottinn. Í þessu verki undirstrika formin greinilega inntak verksins. Hendur og axlir eru stórar og þrútnar og lýsa þjáningu erfiðisins.