Hjör­leifur Sigurðsson

Veröld sem var

Width:

105 cm

Height:

120 cm

Category:

Málverk

Year:

1966

Veröld sem var er í flokki mynda sem Hjörleifur Sigurðsson hóf að gera á árunum 1963–64. Snemma á sjöunda áratugnum sagði listamaðurinn skilið við hugmyndafræði strangflatalistarinnar og Mondrians sem sett hafði mark sitt á myndlist hans allt frá því um 1955. Sjálfur segir hann í bók sinni Listmálaraþankar (bls. 98) að síðasta verkið í geómetrískum dúr hafi hann gert árið 1962. Á tímabilinu 1966–69 tók við enn lífrænni og óformlegri myndgerð í list Hjörleifs, tímabil sem kallað hefur verið „belgtímabilið“. Verk hans minna þá um margt á verk Jean Fautrier og myndaröð hans Otages (Gíslarnir). Er líkt og óreglulegur belgur eða form nái yfir allan myndflötinn eða sé skýrt afmarkað. Að hluta til er Hjörleifur að bregðast við þeirri hugarfarsbreytingu sem átti sér stað í sjónlistum um víða veröld á seinni hluta sjötta áratugarins og fram eftir þeim sjöunda. Af menningarpólitískum ástæðum hafði geómetrísk myndlist smám saman látið undan síga og krafist var aukins frjálsræðis í kjölfar þeirrar aðhaldssemi sem einkenndi fyrstu árin eftir styrjöldina. Í myndlistinni lýsti þetta sér þannig að strangtrú vék fyrir tilfinninga- og tilviljunarkenndri myndlist á borð við þá sem birtist í þessari mynd Hjörleifs. Undirliggjandi merkingar er að finna í mörgum mynda Hjörleifs; til dæmis getur það varla verið tilviljun að þessi mynd ber sama nafn og fræg bók eftir Stefan Zweig sem er persónuleg úttekt á menningarlífi í Evrópu á fyrstu árum 20. aldar og fram undir heimsstyrjöldina síðari. Þessar myndir Hjörleifs eru mjög frábrugðnar myndum starfsbræðra hans í íslenskri abstraktlist vegna lífrænnar formgerðar þeirra; smáheimur lífríkisins, míkrókosmos, kemur iðulega upp í hugann þegar myndir hans eru gaumgæfðar.