Ásmundur Sveinsson

Járn­smið­urinn

Height:

275 cm

Category:

Skúlptúr

Year:

1936

Við Snorrabraut Ásmundur skóp Járnsmiðinn í Kaupmannahöfn árið 1936. Myndin sýnir járnsmið sem styður sig fram á steðjann. Með þessu verki vann listamaðurinn samkeppni um merki Iðnsýningarinnar í Reykjavík árið 1952. Ásmundur stækkaði verkið í steinsteypu árið 1955 og var því komið upp við Snorrabraut í Reykjavík. Í þessu verki er afmyndunin orðin ráðandi í listsköpun Ásmundar. Mannleg hlutföll eru hverfandi og anatómían er umbreytt að vilja listamannsins – fætur stuttir og gildir og hægri öxlin óeðlilega stór og teygð svo nokkuð sé nefnt. Samsetning verksins byggist á lóðréttum og láréttum kröftum sem halda verkinu í kyrrstæðri spennu. Í viðtali við Morgunblaðið, 10. október 1954, gerði Ásmundur ítarlega grein fyrir þessu verki: „Ég var tíður gestur hjá járnsmiðum í Reykjavík [þegar ég var um tvítugt], þar sá ég nýtízku járnsmíði í algleymingi – og ég stóð höggdofa frammi fyrir þeim ósýnilegu risaöflum, sem ég sá nútímann leysa úr læðingi. Járnsmíðin var orðin að trölladómi, vélabáknin verkuðu á mig eins og tröll. ... Í þessari hugarreynslu minni, sem varð smám saman að blossandi innri hvöt, urðu til spírurnar að „Járnsmiðnum“. Ég lifði í huganum ýmist við hamarinn og steðjann heima í sveitasmiðju föður míns eða í tröllaborgum járnsmiðjanna í Reykjavík – hver getur láð mér þó að ég vildi reyna að létta dálítið á ofurhlöðnum huga mínum – gera tilraun til að túlka stærðina gagnvart smæðinni – þessar andstæður, sem brutust um hið innra með mér?... – Ógæfan, segir Ásmundur myndhöggvari, er sú, að menn binda þetta verk mitt við einstaklinginn. „Járnsmiðurinn“ á járnsmið – ég var að reyna að gera symbol hinnar tröllauknu járnsmíði nútímans – og um leið þá tröllauknu breytingu, sem átt [hefir sér stað] frá þeim tíma, er ég sem drengur stóð í smiðjunni – og reyndar öllum iðngreinum – hún er allsstaðar, þessi tröllaukna breyting. Og ég hef vissan átrúnað á risatækni nútímans, ég hefi trú á því að hún leysi fólkið úr þrældómi gamla tímans – og hún hefir þegar gert það að miklu leyti ... – Sjáið þið til, segir listamaðurinn og bendir okkur á lítið líkan af „Járnsmiðnum“ úr hertum leir, sem stendur fyrir framan okkur á borðinu. – Þessar beinu og sterku línur, ég átti í miklum erfiði við að ná þeim, en ég varð, hvað sem það kostaði, til að geta gripið heildaráhrifin, – þetta þúsundfalda afl samanþjappað í forminu. Járnsmiðurinn er þarna í hvíldarstöðu – horfir fram í nútímann – og gamli járnsmiðurinn er þarna líka – hamarinn og steðjinn – eins og tengiliður á milli hins gamla og hins nýja, milli þess, sem var og er. . . – En hvað með hægri öxlina – í hvíldarstöðu? – Já, hún á að undirstrika kraftinn öðrum megin til að hvíldin – átaksleysið – hinum megin komi því skýrara í ljós. Heildin verður að halda sér uppi, enda þótt í hvíldarstöðu sé. Hún á ekki að tákna fyrst og fremst átak, heldur miklu fremur kraft í kyrrstöðu – ógurlegan og voldugan kraft – eitthvað monumentalt. Það „monumentala“ er fyrir mér eitthvað stórt og kraftþrungið, sem ekki getur samrýmst fínleika og viðkvæmni – ég hefi gaman af hvorutveggja ... – Þetta var það, sem ég ætlaði að gera. Ég veit ekkert, hvort mér hefir tekizt það, en ég er að reyna að segja satt. Það er ekki alltaf, sem myndirnar gefa mikið hinu ytra lífi, þótt þær hafi kostað mikinn innri blossa og stríð.“