Anna Hallin: Interplay

Anna Hallin: Interplay

Anna Hallin: Interplay

Ásmundarsafn

-

Sýning sænsk – íslensku myndlistarkonunnar Önnu Hallin ,,Samleikur” í Ásmundarsafni fjallar m.a. um þá þræði sem liggja til ýmissa átta í listasögunni, á milli landa, menningarheima og tímabila og frá einum listamanni til annars. Á þessari sýningu vinnur Anna með eins konar samspil verka sinna og höggmynda Ásmundar Sveinssonar.

Hún skoðar jafnframt tengsl Ásmundar við Svíþjóð og verk Carls Milles en Ásmundur var nemandi Milles í Stokkhólmi um árabil. Á sýningunni eru skúlptúrar eftir Önnu, teikningar og innsetning sem eiga í samtali við bygginguna og valin verk Ásmundar frá fjórða og fimmta áratugnum.

Fígúratívar höggmyndir Ásmundar og Milles eiga margt sameiginlegt, þær eru t.d. yfirleitt naktar og stílfærðar. Formskrift og túlkun Ásmundar er þó þyngri og jarðbundnari, það er stundum eins og fígúrurnar hafi lyft sér líkt og þær væru úr deigi. Verk Milles eru hinsvegar loftkenndari og klassískari bæði í stíl og frásögn en báðir vildu listamennirnir gjarna finna höggmyndum sínum stað í opinberu rými og sóttu talsvert í eigin menningararfleið í listsköpun sinni.

Anna hefur grandskoðað verk þessara tveggja listamanna og vinnur einnig með fígúratíva hefð í verkum sínum á sýningunni. Hún horfir jafnframt á viðfangsefnið út frá femínísku sjónarhorni í samtímanum og rannsakar hvar óvænt tengsl í gegnum tíma og rými má uppgötva, hvar einskonar myndrænn samruni á sér stað og hvar áhugaverður núningur getur skapast.

Á sýningunni skapast samleikur milli forma og útlína ólíkra listaverka. Í huga áhorfandans á sér stað viss samanburður, bæði í sjónrænu og hugmyndalegu tilliti. Jafnframt er áhorfandinn hvattur til þess að hugsa um listina í stærra samhengi, sögulegu og samfélagslegu. Anna hefur á ferli sínum tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis og erlendis og haldið einkasýningar hér á landi, í Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi svo nokkuð sé nefnt. Verk eftir hana eru m.a. í eigu Gerðarsafns, Listasafns Reykjanesbæjar og Listasafns Íslands. Um árabil hefur Anna unnið að myndlist í samstarfi við konu sína, myndlistarkonuna Olgu Bergmann, undir nafninu Berghall, en þær sýndu m.a. samstarf sitt í Listasafni Íslands árið 2012..

Images of exhibition