Erró

Burt með eftirlit úr verk­smiðj­unni

Málverk

Width:

200 cm

Height:

130 cm

Category:

Málverk

Year:

1959

Skömmu eftir að Erró hafði komið sér fyrir í París málaði hann Méca-syrpuna, málverk þar sem hann bendir á margvíslegan sjúkleika hins iðnvædda og kapítalíska nútímaþjóðfélags og fordæmir hvers kyns eftirlitsstýringu og firringu mannsins. Þessi málverk liggja einhvers staðar milli súrrealisma og vísindaskáldskapar og fjalla um vélvæðingu mannkynsins og sýna dökkan og ofbeldisfullan heim. Í verkinu Burt með eftirlit úr verksmiðjunni mætir áhorfandanum fangabúðarstemning þar sem verurnar á striganum hafa orðið fyrir einhvers konar „vélmyndbreytingum“. Hávaði og læti eru hér allsráðandi. Höfuð með æpandi munnum birtast upp úr hrærigraut lífrænna og vélrænna forma. Í þessum hrærigraut er gríðarmikil dramatísk spenna, hún er síðan undirstrikuð með spíralforminu sem markar myndbygginguna og sömuleiðis því hvernig aðalsenan í málverkinu er innrömmuð.