Width:
213 cm
Height:
104 cm
Category:
Málverk
Year:
1960
Um 1945 tók Kjarval að venja komur sínar í Gálgahraun á Álftanesi. Hann kom þar margsinnis á næstu tveimur áratugum og málaði þar nokkurn fjölda verka. Í Gálgahraunsmyndunum leggur Kjarval áherslu á nekt hraunsins og þau fjölbreytilegu, hvössu form sem þar er að finna, skreytt lággróðri. Einstaka sérkennilegir hraundrangar urðu honum einnig að yrkisefni. Hann átti sér að því er virðist eitt uppáhalds „stæði“ og málaði þar fjöldann allan af myndum. Meginmyndefni hans frá þessu sjónarhorni er fremur flatur hraunklettur og umhverfi hans en í forgrunni er oft hraunstrýta. Túlkun hans á myndefnum úr Gálgahrauni á þessu skeiði er fjölbreytileg. Nokkuð ber á verkum þar sem listamaðurinn bregður fyrir sig kúbísku myndmáli, sundurgreinir form jarðarinnar og túlkar hin fjölmörgu litbrigði er leynast í mosa og steinum. Í verkinu Úr Gálgahrauni frá því um 1960 kveður við annan tón. Verkið er óreiðukennd samþætting landslags og vera, þar iðar allt af óvæntu lífi, andar eru á kreiki og andlit stara út úr klettunum. Gálgahraunsmyndirnar endurspegla næmi Kjarvals á umhverfi sitt og hæfileika hans til að sjá og upplifa fegurð og fjölbreytileika náttúrunnar á stað þar sem flestir myndu einungis sjá svart og úfið hraun.