Jóhannes S. Kjarval

Blómakarfa frá B.S.R.

Málverk

Width:

147 cm

Height:

101 cm

Category:

Málverk

Year:

1955

Hinn 15. október 1955 varð Kjarval sjötugur og urðu margir til þess að heiðra hann. Listamanninum barst fjöldinn allur af afmæliskveðjum, símskeytum og ekki síst blómum. Kjarval hafði oft þann háttinn á að mála blóm sem honum bárust að gjöf og oft fór það svo að gefandi blómanna hlaut myndina að gjöf sem þakklætisvott fyrir blómin. Í blómauppstillingum sínum fer Kjarval ekki troðnar slóðir. Oftar kemur það fyrir að hann máli blómin inn í hugmyndaheim sinn en að hann sýni þau í raunsæju umhverfi, þótt þess séu einnig dæmi. Á sjötugsafmælinu barst honum meðal annars stór blómakarfa frá Bifreiðastöð Reykjavíkur. Þessi sending frá vinum hans á BSR varð honum efni í að minnsta kosti tvær stórar uppstillingar. Blómakarfa frá BSR sem hér er sýnd er önnur þeirra. Blómakarfan fyllir út í nær allan myndflötinn. Einfaldur bakgrunnur hennar býr yfir tvíræðni en hann má túlka hvort heldur er tví- eða þrívíðan.