Jón Gunnar Árnason

Sólfar

Width:

1600 cm

Height:

900 cm

Category:

Skúlptúr

Year:

1986

„Við eigum öll okkar draumabát, farartæki sem okkur dreymir um að sigla á burt inn í drauminn. Í þessum skipum mínum sameina ég mína eigin ímyndun nákvæmni og þekkingu bátasmiða frumstæðra þjóða gegnum aldirnar. Sólarskipið felur í sér fyrirheit um ónumið land.“ (Jón Gunnar Árnason) Verkið er staðsett við Sæbraut. Í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986 efndu íbúasamtök Vesturbæjar til samkeppni um útilistaverk. Sólfar Jóns Gunnars varð fyrir valinu og var frummyndin,lítill álskúlptúr, gefin Reykjavíkurborg til stækkunar. Sólfarið var sett niður við Sæbraut í fullri stærð og afhjúpað á afmæli Reykjavíkurborgar 18. ágúst 1990. Ári áður féll listamaðurinn frá, langt fyrir aldur fram, og náði því aldrei að njóta verksins í endanlegri mynd. Sólfarið er óður til sólarinnar og felur í sér fyrirheit um ónumið land, leit, framþróun og frelsi. Það er draumafley sem felur í sér von og birtu.