Height:
410 cm
Category:
Skúlptúr
Year:
1936
Verkið er staðsett við Ægisíðu Myndin Björgun varð til í Kaupmannahöfn er Ásmundur dvaldist þar veturinn 1936–37. Myndin sýnir björgun úr sjávarháska og hefur hún einnig verið nefnd Sjómennirnir. Myndin var stækkuð í 4 m á árunum 1957–60 og steypt í brons árið 1983. Sviðsetning verksins er nokkuð tvíræð. Efri maðurinn stendur á skeri eða bátskili, sem allt eins gæti verið alda, og reynir að draga þann neðri úr öldurótinu. Mennirnir tveir mynda samfellda hvirfilhreyfingu sem gengur frá hægri fæti neðri mannsins upp í vinstri hönd þess sem hærra stendur. Áherslan er lögð á átakið, andartakið þegar maðurinn er dreginn úr sjó – greipum dauðans. Hér er það myndbyggingin, hvirfilhreyfingin, sem miðlar inntaki verksins og því er innri formgerð – anatómía og hlutföll – beygð undir heildarsýn verksins og löguð að því. Þannig tökum við eftir því hvernig hægri handleggur og öxl efri mannsins eru ummynduð við átakið og látin renna inn í heildarhreyfingu myndarinnar. Því má segja að dramatískt inntak verksins kalli á umbreytingu formsins.