Guðrún Gunn­ars­dóttir

Uppspretta

Önnur verk

Width:

46 cm

Height:

199 cm

Category:

Textíll

Year:

1990

Huglæg og ljóðræn verk Guðrúnar sverja sig í ætt konkret ljóðlist þar sem efnið sjálft hefur orðið. Verk hennar kalla fram margs konar hugrenningatengsl, því þau eru opin og eftirleikurinn áhorfandans, að finna merkingu ef vill. Það er alla jafna auðvelt að tengjast verkum Guðrúnar sem hafa mismunandi áferð og efniskennd. Heiti verkanna vísa oft til náttúrunnar og þar er þráðinn að finna. Hér er það kraftmikill rauður litur sem ber verkið uppi og minnir á að orkan býr í náttúrunni sem getur verið eilíf uppspretta hugmynda. Þangað sækir listakonan innblástur eins og í þessu hugvitssamlega unna verki þar sem láréttir birkikvistir tengja rauða og svarta flötinn sem mótvægi við lóðrétt ris verksins þar sem grænt faxið sem flaksast vinstra megin skapar hreyfingu og eykur orku rauða litarins. Guðrún hefur nýtt sér hefðbundið form og efnistök veflistarinnar auk þess að leita sífellt nýrra leiða til að víkka út formið og ekki vílað fyrir sér að leita fanga í margvíslegu efni. Texti frá sýningunni Listþræðir í Listasafni Íslands árið 2020