Width:
160 cm
Height:
206 cm
Category:
Skúlptúr
Year:
1937
Við gatnamót Lækjargötu og Bankastrætis Vatnsberinn varð til þegar Ásmundur vann að listsköpun í Kaupmannahöfn veturinn 1936–37. Myndin sýnir konu rogast með tvær vatnsfötur. Fegrunarfélag Reykjavíkur keypti styttuna árið 1948 og vildi láta hana standa í Bakarabrekku við Lækjargötu í Reykjavík. Það náði ekki fram að ganga sökum mikillar andstöðu nokkurra samborgara listamannsins. Hlutust af miklar deilur. Var henni þá valinn staður í Garði Ásmundar við Sigtún. Árið 1967 var myndin steypt í brons og í ágústmánuði sama ár komið fyrir efst í Litluhlíð við Öskjuhlíð í Reykjavík. Myndbygging Vatnsberans er í miklu og þaulhugsuðu jafnvægi: fötur og handleggir mynda samhverfu, vinstri fótur kemur fram inn á milli fatanna, en sá hægri aftur, þannig að grunnflöturinn er þríhyrndur. Kraftlínur Vatnsberans mynda því nánast pýramída séð allt um kring, en sú tegund myndbyggingar er þekkt úr listasögunni til að skapa festu og stöðugleika. Það eina sem brýtur upp þessa kyrrstöðu er, líkt og í fleiri verkum Ásmundar, staða höfuðsins, sem hallar ögn, mýkir myndbygginguna og gefur í skyn hreyfingu. Það sem einkennir þessa mynd er massinn. Efnið er slétt, formið lokað og afgerandi. Þessi efnisþyngd, sem kölluð er fram í Vatnsberanum lýsir vel inntaki verksins: „Þegar ég vann Vatnsberann, hafði ég tröllslega fjallamyndun Íslands í huga,“ sagði listamaðurinn í samtali við Matthías Johannessen í Bókinni um Ásmund. „Og svo vinnukonurnar, sem ég sá í æsku minni brjótast út í hríðina og koma gaddfreðnar til baka með vatnsföturnar sínar. Þær vildu ekki láta kenna í brjósti um sig. Alls ekki. Ég mundi aldrei gera mynd af verkafólki, þar sem hægt væri að sjá meðaumkun. Þetta fólk á annað skilið“ (bls. 7–8).