Ásmundur Sveinsson

Gegnum hljóð­múrinn

Width:

300 cm

Height:

357 cm

Category:

Skúlptúr

Year:

1952

Verkið er staðsett við Icelandair Hotel Reykjavik Natura Ásmundur gerði verkið Gegnum hljóðmúrinn í Reykjavík árið 1952 úr koparþynnum. Árið 1966 var myndin stækkuð í 4 m og komið fyrir utan við Hótel Loftleiðir eins og það hét þá. Árið 2024 var verkið fært fyrir framan nýjar höfuðstöðvar Icelandair í Hafnarfirði Í þessu verki hefur Ásmundur sagt skilið við hlutveruleikann. Myndin er ekki af ákveðnum hlut heldur tjáir hún einvörðungu hugmynd um kraft og hraða. Þetta er innri sýn listamannsins, sem þó hefur vísun í samtímann, tengist hugmyndum um flugið, tæknina og geimöldina sem á þessum tíma var að opna manninum nýjar og áður óþekktar víddir í tilverunni. En þó að Ásmundur hafi yfirgefið það myndmál sem líkir beint eftir veruleikanum má segja að verkið og nafn þess gefi í skyn ákveðið umhverfi og ástand. Formrænt skiptist myndin í hringform utan um fleyg. Í hringforminu virðist listamaðurinn leita eftir formleysi (sem er afar erfitt í höggmynd) og hefur það því allar forsendur til að vera ský. Og það sem undirstrikar hið mjúka eðli hringformsins er fleygurinn sem gengur í gegnum það, oddhvass og harður. Þetta er vel skilgreinanlegt form, sem klýfur hringformið og getur því fyllilega staðið fyrir flugvél eða eldflaug. Ásmundur sagði í blaðaviðtali að hann hefði fengið hugmyndina að verkinu er hann ferðaðist í fyrsta sinn í flugvél. Þó að verkið fjalli ekki beinlínis um þá flugferð (myndin hét í fyrstu Skýjaklýfir) er víst að hugsýn listamannsins styðst við hlutlæga sviðsetningu. Segja má að þetta sé abstraksjón af flugi. Verkið er í eigu Icelandair Hotels