8. september 2019 - 11:00 til 13:00
15. september 2019 - 11:00 til 13:00
22. september 2019 - 11:00 til 13:00
29. september 2019 - 11:00 til 13:00

William Morris útsaumsvinnustofa

Opin saumavinnustofa
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Komið á Kjarvalsstaði og saumið út fallegt munstur eftir Morris!

William Morris (1834-1896) var listamaður, hugsuður, rithöfundur og samfélagsrýnir sem hafði mikil áhrif á samtíma sinn. Hann var framúrskarandi handverksmaður og bar sig eftir því að læra að sauma og vefa; handverk sem jafnan hafði verið verk kvenna. Fyrir Morris var handverkið í hávegum og átti að vera aðgengilegt öllum. Nú þegar fjölbreytt verk Morris eru til sýnis í Listasafni Reykjavíkur er meira en viðeigandi að útsaumur og handavinna fari fram á safninu.

Í samstarfi við Ömmu mús – handavinnuhús býður safnið upp á opna vinnustofu í útsaumi á Kjarvalsstöðum í september. Markmiðið er að skapa vettvang þar sem handverksfólk (allt frá byrjendum til þeirra sem eru lengra komnir) kemur saman og saumar út munstur sem William Morris hannaði. Lára Magnea Jónsdóttir, textílhönnuður, veitir aðstoð á staðnum. 

Þátttakendur geta komið alla sunnudagana eða í einstaka tíma en hvert skipti kostar 1000 krónur. Efni er ekki innifalið í vinnustofugjaldinu en útsaumssett með munstrum William Morris verða til sölu í safnbúðinni á Kjarvalsstöðum: Bókamerki, útsaumsmyndir og púðar. Við mælum með að fólk mæti aðeins fyrr til að velja og versla útsaumssett.

Þar sem fjöldi þátttakenda er takmarkaður biðjum við ykkur um að skrá ykkur hér og það er nauðsynlegt að skrá öll skiptin sem ykkur langar að koma:

8. september – Skráning hér

15. september – Skráning hér

22. september – Skráning hér

29. september – Skráning hér

Ef þið sjáið ykkur ekki fært um að mæta einhvern dag sem þið hafið skráð ykkur á megið þið endilega láta vita með því að senda póst á aldis.snorradottir@reykjavik.is.

Fyrsta sunnudaginn, þann 8. september verður byrjað á léttri leiðsögn fyrir þátttakendur vinnustofunnar um sýninguna Alræði fegurðar!

Handhafar Menningarkorts og Árskortshafar fá 10% afslátt af þátttökugjaldi og útsaumssettum í safnbúðinni.