Viðey friðey – sumarnámskeið f. 8-9 ára börn

Spennandi vikunámskeið fyrir 8-9 ára börn (fædd 2014 og 2015) í friðsælu náttúruperlunni Viðey. Börnin nema land, upplifa sögu og náttúru eyjarinnar í gegnum skapandi og listrænt starf innan- og utandyra. Þau fá að kynnast gamla skólahúsinu í Viðey sem var hluti af þorpinu sem hvarf. Í nýuppgerðu skólahúsinu er sérlega góð aðstaða til tilrauna og rannsókna á gersemum náttúru eyjunnar sem verða notaðar sem efniviður í myndlistarsköpun og leiki. Unnið verður sérstaklega með friðarupplifun í gegnum listir, leiki, markvissa útiveru og hreyfingu.
Markmið námskeiðsins er að hver og einn þátttakandi fái að njóta sín á eigin forsendum undir handleiðslu fagfólks. Leitast verður við að skapa vingjarnlegt umhverfi fyrir börnin án snjalltækja, þar sem þau munu skapa nýjar minningar í hópi jafningja.
Fjöldi barna er takmarkaður á námskeiðinu, að lágmarki 12 börn og að hámarki 15 börn.
Viðey-Friðey er samstarfsverkefni Borgarsögusafns og Listasafns Reykjavíkur og hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði.
Nánari lýsing:
Tímasetning námskeiða:
Námskeið 1: 12.-16. júní
Námskeið 2: 19.-23. júní
Námskeið 3: 26. júní-30. júní
Kennarar námskeiðsins taka á móti börnunum við bryggjuna á Skarfabakka og ferjan siglir af stað stundvíslega kl. 09:00 á hverjum morgni. Þess vegna er gott að mæta allavega 15 mínútur fyrr, svo það gefist tími til að spjalla við kennara ef eitthvað er.
Ferjan kemur til baka á Skarfabakka kl. 15:45.
Praktísk atriði:
Börnin þurfa að hafa með sér nesti fyrir morgunhressingu og hádegismat, skjólgóðan fatnað og góða skó. Gott er að hafa nesti og aukafatnað í bakpoka því það er um 20-30 mínútna gangur frá bryggjunni í Viðey og í skólahúsið þar sem námskeiðið fer að stórum hluta fram.
Heimsókn í Viðey felur í sér töluverða útiveru og gott er að hafa í huga að hvassara getur verið í eynni en á landi. Göngustígar liggja um graslendi sem getur verið blautt og suma dagana verður farið í fjöru. Við minnum á sólarvörn áður en lagt er af stað. Einnig er nauðsynlegt að börnin komi með inniskó þar sem gólf skólahússins er gróft.
Síðasti frestur til að hætta við skráningu og fá reikning felldan niður er tveimur vikum fyrir upphafsdag námskeiðs.
Kostnaður:
38.500 kr. fyrir 5-daga námskeið
20% afsl. fyrir systkini (eins og önnur Rvk. námskeið)
Skráning á námskeiðin fer fram á sumar.vala.is.
Þar er hægt að leita að námskeiðinu með því að skrifa “Viðey” í reit fyrir heiti námskeiðs.
Kennarar: Ása Helga Ragnarsdóttir og Björk Bjarnadóttir
Ása Helga Ragnarsdóttir er leikari að mennt. Hún lauk námi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1996 og fór síðan í framhaldsnám til Bretlands og lauk þaðan meistaragráðu í listum með áherslu á leiklist í kennslu. Hún hefur síðan kennt við menntavísindasvið Háskóla íslands.
Sem leiklistarkennari hefur Ása lagt áherslu á að kenna kennaranemum að nota leiklist í námi barna. Hún hefur haft sköpun að leiðarljósi í sinni vinnu.
Undanfarin sumur hefur Ása kennt á námskeiði um staðartengda útimenntun á vegum menntavísindasviðs þar sem nemendur upplifa náttúruna með öllum sínum skynfærum, vinna með sögur þeirra staða sem þeir fara á og tengja listir við upplifun sína. Ása var á árunum 1982-85 umsjónamaður stundarinnar okkar í sjónvarpinu.
Björk Bjarnadóttir, umhverfisþjóðfræðingur, er með B.A próf í þjóðfræði frá Háskóla Íslands og M.A í umhverfisfræðum frá sama skóla. Hluta af mastersnáminu tók hún úti í Kanada við Háskólann í Manitoba. Hún vinnur nú sem kennari og aðstoðar kokkur i Waldorfskólanum í Lækjarbotnum. Hún hefur verið með sagnastundir og leiðsagnir fyrir Reykjavíkurborg í Árbæjarsafni: draugaganga og Jónsmessunæturganga, Viðey: þjóðsögur við hafið sem og kúmenganga og á Landnámssýningunni: sagt frá rótum Hrekkjavökunnar en hún er hennar sérstaka gæluverkefni sem Björk stúderar í frístundum, mjög forn, áhugaverð hátíð sem dreifist æ hraðar um heiminn. Plöntur og fuglar eru einnig áhugamál sem og við lífræna ræktun á tómötum og salati inni í Mosfellsdal.