28. apríl 2022 - 20:00

Umræðuþræðir: Shu Lea Cheang

Umræðuþræðir: Shu Lea Cheang
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Umræðuþræðir er samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur, Listaháskóla Íslands, og Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar.

Allt frá árinu 2012 hefur listamönnum, fræðimönnum og sýningastjórum sem njóta viðurkenningar í hinum alþjóðlega listheimi verið boðið hingað til lands á vegum verkefnisins. Meðal gesta má nefna Heike Munder, Miwon Kwon, Claire Bishop, Nicolaus Schafhausen , Mary Jane Jacob and Dieter Daniels, Douglas Gordon og fleiri.

Lagt hefur verið upp með að skapa vettvang hérlendis fyrir alþjóðleg tengsl og umræður; gestirnir kynnast íslensku listalífi, stunda gestakennslu um leið og þau kynna eigin verk og hugðarefni með opnum fyrirlestrum í Listasafni Reykjavíkur.

Shu Lea Cheang er taívansk- amerkískur listamaður sem búsett er í París. Hún notast við fjölbreytta miðla og þá sérstakleg nýmiðla, net og kvikmyndagerð auk innsetninga, gjörninga og fleira. Hún er frumkvöðull í netlist og var verkefni hennar BRANDON (1998-1999) fyrsta netverkið sem Guggenheim safnið í New York pantaði og bætti í safneign sína. Verk hennar eða sögur sem þar koma fram eru innblásin af vísindaskáldskap en Cheang hefur um árabil mótað sinn eigin stíl og höfundareinkenni undir hatti hinsegin kvikmyndagerðar (e.new queer cinema) með fjölbreyttum kvikmynda, vídeó- og/eða netverkum sínum. Shu Lea Cheang var fulltrúi Taívanska skálans með sýningarverkefninu Taiwanese 3x3x6 á Feneyjartvíæringnum árið 2019. Bandaríska sendiráðið á Íslandi styrkir heimsókn Shu Lea Cheang.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.