21. október 2018 - 16:00

Tríó Reykjavíkur: Öndvegisverk á afmælistónleikum

Tríó Reykjavíkur
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

30 ára afmæli Tríós Reykjavíkur

Á þessu ári eru liðið 30 ár frá stofnun Tríós Reykjavíkur. Tríóið stofnuðu þau Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, Halldór Haraldsson píanóleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari árið 1988. Halldór Haraldsson starfaði með trióinu í sjö ár, en þá tók Peter Máté píanóleikari við. Undanfarin þrjú ár hefur Richard Simm verið píanóleikari tríósins.

Tríóið hefur á ferli sínum leikið víða, bæði innanlands og utan. Má þar nefna margar tónleikaferðir til Danmerkur, tónleika í Bretlandi, Tékklandi og Bandaríkjunum. Tríóið hélt reglulega tónleika í 22 ár í samvinnu við Hafnarborg, menningar og listastofnun Hafnarfjarðar. Auk þess stóð trióið fyrir tónlistarhátíðinni Bjartar Sumarnætur í Hveragerði um 10 ára skeið.

Í áratug hefur Tríó Reykjavíkur staðið fyrir hádegistónleikaröð á Kjarvalsstöðum í samvinnu  við Listasafn Reykjavíkur.

Í starfsemi sinni hefur tríóið átt í samstarfi við fjölbreyttan hóp listamanna í fremstu röð, bæði erlenda og ínnlenda. Af erlendum gestum þeirra má t.d. nefna Leon Spierer, f.v. konsertmeistara Berlínar Fílharmóníunnar, Julius Baker, f.v. 1. flautuleikara í New York Fílharmóníunni og bandaríska fiðluvírtuósinn Rachel Barton Pine.

Í tilefni af þessum merku tímamótum býður Tríó Reykjavíkur til afmælistónleika sunnudaginn 21. október kl. 16.00 á Kjarvalsstöðum.

Þar verða leikin tvö öndvegisverk tríótónbókmentanna: tríó eftir J. Brahms í C-dúr Op. 87 og hið fræga tríó nr. 2 í e-moll eftir D. Schostakovits.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Verð viðburðar kr: 
0