6. maí 2021 - 20:00

Tímaleysi á tímum breytinga: Leiðsögn Ann-Sofie N. Gremaud - Þar sem heimurinn bráðnar

Tímaleysi á tímum breytinga:  Leiðsögn Ann-Sofie N. Gremaud - Þar sem heimurinn bráðnar
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Ann-Sofie N. Gremaud, menningarfræðingur og lektor í dönsku við Háskóla Íslands, verður með leiðsögn um sýningu Ragnars Axelssonar Þar sem heimurinn bráðnar þar sem hún dregur saman sjónarmið úr klassískri listasögu og tengir við hugleiðingar um hvernig loftslagsbreytingum er miðlað og þann aukna áhuga sem merkja má á norðurslóðum í menningu samtímans.

Leiðsögnin verður á íslensku og er skráning nauðsynleg HÉR.

Sýning Ragnars Axelssonar Þar sem heimurinn bráðnar er í senn birtingarmynd tímaleysis og táknmynd hraðra menningarlegra og umhverfislegra breytinga. Meðal þeirra spurninga sem Ann-Sofie mun ræða í leiðsögninni eru hvernig þessir þættir tengjast Íslandi og hvað gerir ljósmyndina að einstökum miðli til að tákna þessi skörunarsvið? Með hvaða hætti eru ljósmyndir Ragnars Axelssonar í samtali við bæði listasöguna og þá pólitísku stefnumótun sem nú stendur yfir á vestnorræna svæðinu og hvernig tengjast þær þeim sögulegu ímyndum sem Ísland og Grænland hafa haft í gegnum tíðina? Fjallað verður um einstök ljósmyndaverk Ragnars út frá því hvernig þau gera tímann sýnilegan um leið og þær birta okkur mismunandi sjónahorn á náttúruna.

Ann-Sofie N. Gremaud er doktor í sjónmenningu og hefur birt fjölmargar greinar um samtímalist og birtingarmyndir tengsla manns og náttúru. Hún ritstýrði nýlega bókinni Denmark and The New North Atlantic (Aarhus University Press, 2020) ásamt Kirsten Thisted, um menningarlega og pólitíska þróun á vestnorræna hluta norðurslóða. Árið 2018 ritstýrði hún safnritinu Artistic Visions of the Anthropocene North: Climate Change and Nature in Art (Routledge, 2018), ásamt sýningarstjóranum Gry Hedin. Ann-Sofie starfar sem lektor í dönsku við Háskóla Íslands og er hluti af alþjóðlega rannsóknarnetinu The Art of Nordic Colonialism.

Í meira en 40 ár hefur Ragnar Axelsson myndað fólk, dýr og landslag afskekktustu svæða norðurslóða, þar með talið hér á landi, í Síberíu og á Grænlandi. Hann vinnur nú að því að stækka þetta svæði og ferðast mjög víða í leit sinni að myndefni. Í ljósmyndaverkum sínum og ljósmyndabókum endurspeglar hann óvenjuleg tengsl íbúa norðurslóða við öfgakennt umhverfi sitt – tengsl sem eru nú stöðugt að breytast vegna breytinga á loftslagi. Ragnar skrásetur hvernig þessar breytingar hafa áhrif á líf fólks og dýra og hvaða ógn býr að baki hlýnun jarðar.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.