7. apríl 2018 - 14:00

Tak i lige måde: Samtal – Jeannette Ehlers, Tinne Zenner og Kristinn Schram

Verk eftir Tinne Zenner og Jeannette Ehlers.
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Í tengslum við sýninguna Tak i lige måde efnir Listasafn Reykjavíkur til dagskrár sem kallast á við efni hennar og tengist nýlendustefnu Dana. Laugardaginn 7. apríl kl. 14.00 segja tveir listamenn sýningarinnar frá verkum sínum, Jeannette Ehlers og Tinne Zenner. Þjóðfræðingurinn Kristinn Schram segir ennfremur frá stöðu Íslands gagnvart Danmörku fyrr og nú og tekur þátt í samtali við listamennina um verk þeirra og viðfangsefni.

Listasafn Reykjavíkur minnist aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands í ár með því að bjóða myndlistarmönnum frá Danmörku að sýna hér á landi. Tak i lige måde (takk sömuleiðis), endurspeglar margháttað samband landanna fyrr og síðar. Þessi fyrrum herraþjóð Íslendinga á sér langa sögu sem nýlenduveldi. Hinir dönsku listamenn endurspegla hana í verkum sínum, í sögu og samtíma sem og í staðbundnu og alþjóðlegu samhengi. Viðfangsefni þeirra tengjast meðal annars hugmyndum um síð-nýlendustefnu, fólksflutninga, landamæri og sjálfsmynd þjóða.

Verk Jeanette Ehlers endurspegla þríþætta sögu danskrar nýlendustefnu sem byggði á viðskiptum á milli Afríku, Vesturindía og Danmerkur. Danska nýlendan við Gullströndina var miðstöð þrælaverslunar við nýlendur Dana í Karabíska hafinu þangað sem tugþúsundir manna voru sendir í þrældóm. Þar framleiddu þeir varning, eins og sykur, romm og kaffi, sem sendur var til Danmerkur og víðar. Jeannette tekst í verkum sínum á við þennan kafla í nýlendusögu Danmerkur.

Í nýju kvikmyndaverki Tinnu Zenner fáum við innsýn í líf og störf íbúa í bænum Nuuk á Grænlandi. Litið er til snævi þakinna fjalla og jökla allt um kring. Yfir myndinni er texti fluttur á grænlensku sem greinir frá menningarlegum núningi á milli frumbyggja Grænlands og danskra nýlenduherra. Textinn opnar fyrir skilning á ólíkri virkni tungumála og því valdi sem í þeim er falið.

Kristinn Schram er lektor í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hann er doktor í þjóðfræði frá Edinborgarháskóla og hefur starfað sem forstöðumaður Rannsóknaseturs um norðurslóðir og Þjóðfræðistofu. Helsta rannsóknarsvið hans er þjóðfræði í þverþjóðlegum samskiptum og þjóðernislegum sjálfsmyndum. Í rannsóknum hans er frásagnar- og efnismenning hreyfanlegra hópa í borgum Vestur-Evrópu og á vestnorræna svæðinu skoðuð í tengslum við menningarpólitík íslenskrar útrásar, efnahagshruns og norðurslóðastefnu. Kristinn hefur umsjón með rannsóknum, útgáfu, viðburðum og tengslanetum á sviði norðurslóða með áherslu á samfélag, menningu og stefnumótun.

Hugmyndir um sjálfstæði, þjóðerni, ímynd, frelsi og fullveldi kallast á við heimsmynd í stöðugri endurskoðun. Vestræn ríki endurskoða afstöðu sína til og hlutverk gagnvart öðrum heimshlutum og þjóðum þeirra. Þetta hafa Danir þurft að gera með tilliti til nýlendusögu sinnar. Um leið eru mál líðandi stundar sem varða stöðu þeirra í Evrópu mjög ofarlega á dagskrá í allri umræðu. Í listsköpun dönsku myndlistarmannanna er áberandi sú viðleitni að greina og fjalla um þessi málefni. Þeir vísa í eigin reynsluheim og fjölskyldusögu eða takast á hendur heimildavinnu, ferðalög og rannsóknir. Hvað er frelsi, fullveldi, sjálfstæði og sjálfsmynd? Hvernig ávinnur einstaklingur eða samfélag sér þessa hluti? Hverjar eru áskoranir okkar þegar kemur að þeim nú á dögum? Hvaða leiðir hefur myndlist til að takast á við þessi málefni?

Sunnudaginn 8. apríl eru sýndar þrjár heimildarmyndir, Concerning Violence kl. 13.00, Sumé - the Sound of a Revolution kl. 14.30 og We Carry It Within Us – fragments of a shared colonial past kl. 15.45.

Samtal Jeannette, Tinne og Kristins fer fram á ensku.

Aðgöngumiði á safnið gildir.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.