9. apríl 2022 - 14:00

Sýningaropnun: Sprengikraftur mynda

Sýningaropnun: Sprengikraftur mynda
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Sýningin Erró: Sprengikraftur mynda verður opnuð laugardaginn 9. apríl kl. 14.00 í Hafnarhúsi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnar sýninguna og veitir viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur. Sjóðnum er ætlað að efla listsköpun kvenna.

Erró er einn fárra íslenskra listamanna sem náð hafa fótfestu í heimi alþjóðlegrar myndlistar. Sprengikraftur mynda er heildstæð úttekt á hinum litríka ferli listamannsins sem hefur fengist við ýmsa miðla myndlistarinnar. Þar má finna allt frá gjörningum, vídeólist, grafík, fjölfeldi og klippimyndum, til stórra verka í almannarými og málverka á öllum skala, sem hafa unnið honum verðugan sess í evrópskri listasögu. Hér er á ferðinni umfangsmesta sýning sem sett hefur verið upp á verkum listamannsins hérlendis.

Sprengikraftur mynda er sett upp í öllu Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi og verða þar meira en 300 listaverk af ýmsum gerðum, sem og ljósmyndir og annar fróðleikur um listamanninn. Í tengslum við sýninguna kemur út vegleg sýningarskrá með textum eftir sýningarstjórana, þau Gunnar B. Kvaran og Danielle Kvaran, sem rita um ólík tímabil á ferli listamannsins, ásamt textum og viðtölum eftir Bjarna Hinriksson, Jean-Max Colard, Alain Jouffroy, Jean-Jacques Lebel, Hans Ulrich Obrist og Anne Tronche.

Sýningarstjórar: Danielle Kvaran og Gunnar B. Kvaran
Sýningarhönnun: Axel Hallkell Jóhannesson.