20. október 2022 - 20:00

Sýningaropnun - Sigurður Guðjónsson: Leiðni

Lightroom Sigurður Guðjónsson

Sigurður Guðjónsson: Leiðni opnar í Hafnarhúsi þann 20. október og stendur fram í febrúar á næsta ári. 

Sigurður Guðjónsson er þekktur fyrir magnþrungin vídeóverk þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Hann beinir einkum sjónum að virkni margs konar tækjabúnaðar, þar sem áhorfandinn er lokkaður inn í heim sefjandi endurtekningar, takts og reglu og mörk hins mannlega og vélræna verða óljós.

Leiðni er sýning sem afhjúpar tjáningarríka og ögrandi vídd í verkum listamannsins. Leiðni kannar hreyfingar, flæði og  einstakar tilfærslur sem verða til í hinum efnislega heimi. Á sýningunni eru nýleg verk listamannsins  sem og  verk sem gert var sérstaklega fyrir þessa sýningu.   

Verkin eiga það öll sameiginlegt að tengjast rannsóknum listamannsins á örlandslagi og vídeó myndgreiningu þar sem hið sýnilega, hið heyranlega og hið rýmislega mynda eina órofa heild. Sigurður  fangar takta og ummerki á yfirborða hluta í verkum sínum, sérstaklega þegar þeir tengjast iðnaðartækjum. Hin nánast ómerkjanlegu umskipti sem eiga sér stað innan verkanna eru vandlega mótuð til að sýna takt og púls hluta.  Leiðni gefur margslungna innsýn í efni og ástand ævarandi umbreytinga heimsins.

Sigurður Guðjónsson (f.1975) er einn fremsti vídeólistamaður íslenskrar samtímalistar og  var  fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2022. Í rökstuðningi fagráðs sem útnefndi Sigurð sem fulltrúa Íslendinga á Feneyjatvíæringinn segir: „með vali Sigurðar teflir Ísland fram listamanni sem unnið hefur að áhrifamiklum innsetningum á óvenjulegum sýningarsvæðum og byggt upp afar sterka röð sýninga sem vakið hafa verðskuldaða athygli í heimi samtímalistarinnar.“ Sigurður stundaði nám við Billedskolen í Kaupmannahöfn 1998-1999, Listaháskóla Íslands 2000 -2003 BA og Akademie Der Bildenden Kunste í Vínarborg 2004. Hann var valinn Myndlistarmaður ársins 2018. Verk Sigurðar Í Feneyjum Perpetual Motion  verður sýnt í BERG Contemporary í Reykjavík frá 22. október.

Mónica Bello sýningarstýrir Leiðni í Hafnarhúsi en hún er jafnframt sýningarstjóri Íslenska skálans í Feneyjum.