8. febrúar 2019 - 19:00 til 21:00

Safnanótt: Skúli Sverrisson í A-sal

Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Skúli Sverrisson bassaleikari leikur tónlist í A-sal Hafnarhússins fyrir gesti safnsins á Safnanótt. Í salnum stendur yfir sýningin Jarðhæð, sýning á verkum Ingólfs Arnarssonar myndlistarmanns. 

Skúli Sverrisson er fæddur 23. október 1966. Hann hóf atvinnuferil sem bassaleikari aðeins 14 ára gamall og lék á örfáum árum inn á fjölda vinsælla íslenskra hljómplatna áður en hann hélt til náms í Berklee tónlistarskólann í Boston, en eftir nám sitt þar fluttist hann til New York.

Síðustu tvo áratugi hefur Skúli byggt upp merkan og raunar einstakan feril sem annars vegar byggist á tónsmíðum og flutningi á eigin tónlist en hins vegar á margbreytilegu samstarfi við breiðan hóp alþjóðlegra listamanna, allt frá free jazz goðsögnum á borð við Wadada Leo Smith og Derek Bailey til brautryðjenda eins og Lou Reed, Jon Hassel, David Sylvian og Arto Lindsay, og eins nýrra tónskálda/flytjenda, svo sem Ryuichi Sakamoto, Jóhanns Jóhannssonar, Hildar Guðnadóttur og Sidsel Endresen.

Skúli er einnig þekktur fyrir starf sitt sem listrænn ráðunautur og upptökustjóri Ólafar Arnalds, upptökur með hljómsveitinni Blonde Redhead og sem tónlistarstjóri hinnar víðfrægu fjöllistakonu Laurie Anderson. Skúli hefur unnið nýja tónlist með listamönnum eins og Anthony Burr, Óskari Guðjónssyni, Davíð Þór Jónssyni, Arve Henriksen og Eyvind Kang og starfað með hljómsveitunum Pachora, Alas No Axis, The Allan Holdsworth Group og The Ben Monder Group.

Skúli hefur komið fram á yfir 100 hljómplötum og leikið vítt og breitt um heiminn með áðurnefndum listamönnum. Hann hefur unnið sjö sinnum til Íslensku Tónlistarverðlaunanna og tvisvar verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Skúli hefur oftar en einu sinni leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hann starfaði einnig með hljómsveitinni þegar hann samdi verkið Kaldan Sólargeisla við ljóðabálk Guðrúnar Evu Mínervudóttur fyrir hljómsveitina og rödd Ólafar Arnalds sem flutt var á Tectonics hátíðinni í apríl 2014. Einnig ber að nefna Miröndu, nýtt píanóeinleiksverk fyrir Víking Heiðar Ólafsson, sem frumflutt var á opnunartónleikum Reykjavík Midsummer Music 16. júní 2016. 

Af nýlegum verkum Skúla Sverrissonar má nefna einleik hans í tónlist Jóhanns Jóhannssonar fyrir kvikmyndina Sicario og aðkomu hans sem meðhöfundur að verkinu Glacier sem var hluti af tónlist Ruichi Sakamoto í kvikmyndinni the Revenant. Einnig átti hann ríkann þátt í tónlist Jóhanns Jóhannssonar fyrir kvikmyndina Mandy. Þá ber einnig að nefna hljómplötuna Strata, með verkum eftir Skúla flutt af honum sjálfum og gítargoðsögninni Bill Frisell sem kom út á síðasta ári. En í kjölfar hennar taka við dúótónleikaferðir um Evrópu á þessu ári. 

Skúli hefur lengst af ferli sínum lifað og starfað í New York. Síðan hann fluttist aftur til Íslands árið 2012 hafa honum staðið nærri málefni lifandi tónlistar. Hann er einn af stofnendum menningarmiðstöðvarinnar Mengis á Óðinsgötu sem hóf starfsemi sína í desember 2013 og hefur verið undir listrænni stjórn hans frá upphafi. Í Mengi er sköpun og flutningur nýrrar tónlistar í fyrirrúmi og hefur staðurinn fest sig í sessi sem sannkallaður suðupottur í menningarlífi borgarinnar.

 

Verð viðburðar kr: 
0