11. júlí 2019 - 20:00

Reykjavík Safarí á sex tungumálum

Reykjavík Safarí á sex tungumálum
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Menningarlífið í miðborginni kynnt á sex mismunandi móðurmálum. Hvar eru lista- og menningarstofnanir borgarinnar og hvað er í boði fyrir börn, fullorðna og fjölskyldur.

Langar þig að fá skemmtilega menningarleiðsögn á ensku, pólsku, spænsku, filippseysku, arabísku eða litháísku, hlusta á gríska kaffihúsatónlist og hitta heimsborgara í Reykjavík?

Hvar eru bókasöfnin og söfnin, leikhúsin, stytturnar og skemmtilegu staðirnir? Hvað er ókeypis? Hvað gerist um helgar? Hvað er fyrir börn, fjölskyldur og fullorðna?

Í lok göngunnar hittast hóparnir í Borgarbókasafninu, Tryggvagötu 15, þar sem verður boðið upp á hressingu og lifandi tónlistaratriði með hljómsveitinni Syntagma Rembetiko! Hljómsveitina skipa Ásgeir Ásgeirsson á bouzouki, Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir á fiðlu, Alexandra Kjeld á bassa og Margrét Arnardóttir á harmónikku.

Markmiðið er að veita nýjum hópum innsýn í það umfangsmikla og fjölbreytta menningar- og listastarf sem fer fram á söfnunum og virkja borgarbúa til þátttöku. Reykjavík Safarí hefur notið mikilla vinsælda og er það vonin að sem flestir sem tala ofangreind tungumál taki kvöldið frá - enda bæði fróðleg og fjörug kvöldstund framundan!

Allir eru velkomnir og þátttaka ókeypis.
 

Listasafn Reykjavíkur, Borgarbókasafn og Borgarsögusafn Reykjavíkur bjóða upp á kvöldgöngur með leiðsögn á fimmtudagskvöldum í sumar. Auk þess verður hvert safn með eina göngu á ensku og svo sameiginlega Reykjavík Safarí göngu sem verður túlkuð á sex tungumálum: ensku, pólsku, spænsku, litháísku, arabísku og filippseysku. Göngurnar hefjast kl. 20 og lagt er upp frá Grófinni, milli Tryggvagötu 15 og 17, nema annað sé tekið fram.