11. október 2020 - 15:00

Ragnheiður Maísól Sturludóttir: Viðra - FRESTAÐ

Ragnheiður Maísól Sturludóttir: Viðra
Staður viðburðar: 
Hagamelur 41-45

Viðburðinum hefur verið frestað vegna samkomutakmarkana á höfuðborgarsvæðinu.

„Nágrannakona mín viðrar lök, teppi og sængur reglulega. Ég fylgist með henni út um gluggann á meðan ég vaska upp. Við erum í raun að gera það sama, að hreinsa og endurstilla. Losa um gamla orku svo það sé pláss fyrir nýja. Hennar athöfn er þó tilkomumeiri en mín. Hún sveiflar lökunum fram af svölunum og í eitt augnablik umbreytist þessi hversdagslega athöfn í stórkostlegt sjónarspil þannig að ég gleymi mér við uppvaskið.“ 
 
Gjörningurinn Viðra verður fluttur á svölum fjölbýlishúss. Hann fjallar um margföldun þessa augnabliks, þegar fólk sér eitthvað eins og lak að sveiflast í vindi og manneskjuna sem sveiflar því. 
 
Ragnheiður Maísól Sturludóttir (f. 1983) vinnur á mörkum myndlistar og sviðslistar. Verk hennar og rannsóknir beinast að mannlegri hegðun og fagurfræði hversdagsleikans. Ragnheiður Maísól útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2013 og stundar nú meistaranám í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hún er stofnmeðlimur í listahópnum IYFAC.

Listasafn Reykjavíkur efnir á haustdögum öðru sinni til samsýningar á nýrri myndlist í almannarými. Verk átta listamanna birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Um er að ræða gjörninga, inngrip og uppákomur af ýmsu tagi sem kallast á við samfélagslegt rými, opinveran vettvang, stræti, torg og byggingar sem við deilum í sameiningu. Verkin eru meira og minna unnin í óáþreifanlega miðla; Haustlaukarnir skjóta rótum víða og spretta upp við óvæntar aðstæður. Viðfangsefni þeirra átta listamanna sem taka þátt í sýningunni eru fjölbreytt en eiga það öll sameiginlegt að varpa ljósi á eða spyrja spurninga um daglegt umhverfi íbúa borgarinnar og gesta hennar. Þar er fjallað um mörk einka- og almenningsrýmis, eignarhald og frelsi auk þess sem reynt er að fá fólk til þess að staldra við, líta í kringum sig og sjá umhverfið í nýju ljósi. Loks smitast óhjákvæmilega inn í verkin þær breytingar sem orðið hafa á þessu ári og snúa að daglegum samskiptum og venjum á tímum farsóttar. Sum verk eru aðeins flutt einu sinni á meðan önnur eiga sér lengri eða tíðari tilvist. Dagskrá sýningarinnar má kynna sér í sýningarskrá, á samfélagsmiðlum safnsins eða dagskrársíðu þess.

Sýning: 
Verð viðburðar kr: 
0