1. desember 2021 - 9:00

Morgunkorn um myndlist: Lucky 3

Morgunkorn um myndlist: Lucky 3
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Gestir Morgunkorns desembermánaðar er þríeykið Lucky 3 sem samanstendur af listamönnunum Darren Mark, Dýrfinnu Benitu Basalan og Melanie Ubaldo.
Í samtalinu verður sjónum beint að verkum teymisins sem gjarnan kryfur hugmyndir um þjóðerni og þjóðfélag, efnahagslegt og félagslegt misrétti, fordóma og stétt- og valdskiptingu samfélagsins. 

Viðburðurinn fer fram á íslensku. Þátttaka er ókeypis. Skráning HÉR

Lucky 3 var stofnað árið 2019 af Darren Mark, Dýrfinnu Benitu Basalan og Melanie Ubaldo sem eiga það sameiginlegt að vera íslenskir listamenn af filippeyskum uppruna.  Listamannateymið tók þátt í listahátíðinni Sequences síðastliðinn október með verkinu PUTI. Það er í senn gjörningur og innsetning sem þau kalla félagslega kóreógrafíu og endurspeglar ofurraunveruleika kynþáttahlutverka og valdastigveldi og vitnar um leið í átta klukkutíma vinnudag.

Listasafn Reykjavíkur stendur fyrir viðburðardagskránni Morgunkorn um myndlist sem fer fram fyrsta miðvikudag hvers mánaðar í formi morgunfunda. Efni þeirra tengist fjölbreyttum málefnum myndlistar sem mótast af því sem efst er á baugi í faginu og þeim gesti eða gestum sem opna umræðu fundarins. Listamenn, nemar, fagfólk og aðrir áhugasamir eru hvattir til þess að koma og taka þátt í samtali um málefni myndlistar á Morgunkorni um myndlist en viðburðurinn stendur öllum opinn.  

Nánar um listamennina:

Darren Mark (f. 1993) útskrifaðist með BA próf í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2017. Hann leggur stund á fatahönnun, tekur flíkur í sundur og setur þær saman til þess að endurnýta og betrumbæta skapa um leið nýjar flíkur. Darren hefur sýnt á Dutch Design Week í Eindhoven,á Designer’s Nest – tískuvikunni í Kaupmannahöfn og á HönnunarMars í Reykjavík.

Dýrfinna Benita Basalan (f. 1992) er starfandi myndlistarmaður en einnig þekkt sem tónlistarkonan Countess Malaise. Hún útskrifaðist með BA í myndlist og hönnun frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2018. Dýrfinna vinnur út frá mörgum miðlum og hverfast verk hennar oft um sjálfsmynd, samfélag og einsemd. Dýrfinna er í listamannahópnum The Blue Collective, hópi alþjóðlegra listamanna sem eru hinsegin og af jaðarsettum kynþáttum. Hópurinn hefur meðal annars sett upp sýningar í Juliette Jongma galleríi í Amsterdam og í Decoratillier í Brussel í samstarfi við Living Leaving Dacota.

Melanie Ubaldo (f. 1992) útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Í verkum Melanie er myndefni og texti órjúfanleg heild. Sjá má sundurleit málverk sem innihalda texta sem minnir helst á veggjakrot. Textinn vísar í hennar eigin reynslu af fordómafullri hegðun annarra í hennar garð. Verkin afhjúpa valdið sem felst í fordómum og eyðandi áhrifum þeirra á þolendur. Melanie hefur sýnt í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Kling og Bang og Gerðarsafni og listahátíðinni Cycle á Íslandi, Berlín og Argentínu. Jafnframt er verk hennar að finna í safneign Listasafns Reykjavíkur. Melanie á verk á sýningunni Abrakadabra í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi og hún hlaut á dögunum styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur.

UMRÆÐUR:

Listamennirnir Darren Mark, Dýrfinna Benita Basalan og Melanie Ubaldo skipa listhópinn Lucky 3. Þau voru gestir Morgunkorns um myndlist desembermánaðar. Dýrfinna komst ekki í Hafnarhúsið en var með á netinu. Kristín Dagmar Jóhannesdóttir stýrir umræðum.

Listamenn hópsins eiga það sameiginlegt að vera íslenskir listamenn af filippseyskum uppruna. Þau byrja á því að segja frá því við hvað þau séu að fást.
Melanie er í meistaranámi í LHÍ, hún hafi haft nóg að gera undanfarin ár. Hún vinnur með sjálfsævisöguleg textaverk og á einmitt eitt stórt verk á sýningunni Abrakadabra sem tekur á móti gestum þegar inn í Hafnarhúsið er komið.
Darren lærði fatahönnun í LHÍ, hann segist vera að færast af þeirri braut, er að hanna hér og þar í lausamennsku og er núna komin meira út í búningahönnun.
Dýrfinna lærði í Amsterdam og flutti heim til Íslands eftir það. Í náminu var lögð áhersla á videó og hljóð en hún hefur alltaf haldið sig við það að teikna og mála. Hún fæst mest við persónulegar upplifanir og upplifanir kvenna í samfélaginu. Gerir líka tónlist og vídeó. Dýrfinna talar mikið um stöðu sína í samfélaginu og einmanaleika – hún segir að það sé mikilvægt að tala um að vera filippínsk, sérstaklega þar sem hún er hálf-filippínsk. Hún segir að þau í Lucky 3 hafi orðið eins og sér fjölskylda – þau hittast og tala um þá sameiginlega reynslu að vera bæði filippínsk og íslensk á sama tíma. Stundum eru verkin einstaklingsverk en stundum verða þau sterkari ef þau vinna þau saman sem Lucky 3.
Lucky 3 verður til árið 2019 – Stúlkurnar fóru að hittast vikulega að þróa sýningu fyrir Kling og Bang og Darren kom svo inn í það.
Síðast voru þau með verk úti á Granda, í listamannarýminu Open á Sequences listahátíðinni í október. Það gerðist allt í einu, Dýrfinna fékk boð um að taka þátt í Sequences – en þau ákváðu fljótt að þau yrðu að gera þetta sem hópur. Þau fóru saman að borða á Zorbian og þar varð hugmyndin að gjörningnum Puti til. Puti þýðir hvítt. Gjörningurinn snerist um ræstingastarfið. Þau klæddust hvítum fatnaði og settu sig í spor ræstingafólks, en margir Filippseyingar á Íslandi vinna við þrif, t.d. foreldrar Darrens. Þau segja að ræstingastarfið hafi innflytjendastimpil á Íslandi. Darren segir að gjörningurinn vísaði í 8 tíma vinnudag við að skúra. þau gerðu í því að láta gestum Open líða óþægilega, þau gengur í humátt á eftir fólki og skúruðu beinlínis burt sporin þeirra. Þau voru litað fólk að þrífa eftir hvítt fólk. Þau ákváðu fyrirfram að þau myndu vera fremur fjandsamleg við hvítt fólk en blíð og góð við brúnt fólk. Vandinn var hinsvegar sá að það voru nánast engir litaðir á sýningunni, fyrir utan nokkra fjölskyldumeðlimi þeirra sjálfra. Darren segir þetta hafa undirstrikað einsleitni íslensks samfélags og ekki síst listheimsins á Íslandi, það sé vitað hverjir komi á myndlistasýningar. Þeir gestir Morgunkornsins sem sáu Puti gjörningnum lýsa honum sem blautri tusku í andlitið – mjög beittu verki sem veki fólk til umhugsunar.

Hanna Styrmisdóttir, gestur – þakkar fyrir morgunkornið og þeim fyrir verk sín – og spyr hvernig vinna þeirra hafi þróast – hvort hún fjalli alltaf um hvernig sé að búa og starfa í íslensku samfélagi. Svörin eru á þá leið að þau geri það sem þau langi til, en það að vera íslensk-filippseysk hafi alltaf áhrif. Það sé ekki hægt að komast hjá því.

Ari Alexander, gestur - lýsir sömu upplifun úr æsku, eigandi asíska móður, alltaf spurður hvaðan hann sé og hrósað fyrir að tala svo góða íslensku.  

Kristín Dagmar spyr hvort þau upplifi að fleiri útlendingar séu að koma inn í íslenska listasenu. Vísar í greinina Útlendingahersveitin sem pólski rithöfundurinn Ewa Marcinek skrifar í Tímarit máls og menningar. Þar er íslenskri menningu líkt við peysu og vöntunin á þýddum pólskum bókmenntum sé lykkjufallið í peysunni, þar sem Pólverjar séu stærsti minnihlutahópurinn á Íslandi.
Dýrfinna segir að það þurfi meira að gerast í þessum málum til þess að skapa bjartsýni, en þetta sé ekki einskorðað við Ísland, það sé vandamál alls staðar í heiminum hvað útlendingar eru lítið áberandi í listasenunni. Darren segir að það sé meira í orði en á borði.

Gestir Morgunkornsins undirstrika mikilvægi listamannanna og segja mjög mikilvægt að raddir þeirra heyrist. Hanna talar um það að nemendaflóran í LHÍ endurspegli ekki íslenskt samfélag, útlendingar séu ekki sýnilegir þar. Hún leggur áherslu á að það þurfi að taka ákvörðun um að breyta því, eins og var gert varðandi konur sem áður fyrr voru ósýnilegar í listinni, því var breytt með handafli. Það þurfi að ráðast í slíkar breytingar í stofnunum – það sé ekki nóg að það gerist í grasrótinni.

En hvaðan kemur nafnið – Lucky 3?
Darren flytur til Íslands frá Filippseyjum þegar hann var 8 ára – og þá var viðkvæðið vá hvað þú ert heppinn! En er það svo? Þegar þú flytur frá heimalandinu til Íslands – þar sem rasisminn grasserar. Ekki endilega nein heppni. Nafnið er því kaldhæðni en það minnir listafólkið líka á sín eigin forréttindi.

Þau eru sammála um að þau mæti ávallt einhverjum hindrunum, þurfi alltaf að komast yfir ákveðinn þröskuld, ákveðinn hvítan þröskuld. Það sé ákveðinn standard eða filter í samfélaginu, ekki bara í myndlist heldur lífinu öllu. Darren útskýrir filterinn: „Eins og í skólanum, það er alltaf hvít manneskja sem tekur allar ákvarðanir út frá hvítum standördum, og filterar út ýmislegt sem þykir ekki samræmast ákveðnum standard.“ Þá hugsar Darren: „Ó þetta er of brúnt eða litað?“

Hver er framtíð Lucky 3? Þau segjast áfram munu vinna saman, mögulega taka þau tveggja ára hlé milli samstarfsverkefna, enda hafi þau öll mikið að gera sitt í hvoru lagi. Samstarfið megi ekki neyða áfram og forðast þurfi endurtekningar, frekar að láta langan tíma líða á milli gjörninga og leyfa fólki að hvíla í óþægindunum á milli.
Dýfinna: „Ég held að við munum aldrei hætta að vinna saman, það hjálpar okkur í okkar persónulegu vinnu – við getum svo mikið saman, við styrkjum hvort annað, og lærum mikið af því að vinna í hóp, það er gott að geta tekið egóið til hliðar og hugsað um hópinn. Í einstaklingsverkefnunum veltur allt á þér sjálfum, en ábyrgðin er sameiginleg í hópavinnunni. Þetta kviknaði hjá okkur þegar við sátum saman og töluðum um reynlsu okkar og uppgötvuðum að við ættum svo margt sameiginlegt – það var góð tilfinning að heyra að aðrir hefðu upplifað hlutina á sama hátt – við öskruðum: „Já ég líka, ég líka, ég líka!“ Það bjargar okkur andlega, listaheimurinn er erfiður og þetta hjálpar.“
 
Aldís, gestur: „Sýningin í Kling og Bang, gæti hún verið sýnd annars staðar? Hvað með varanleika verkanna? Eins og gjörningurinn í Open, væri hægt að endurtaka hann?“ Melanie segir að það væri vel hægt að endurtaka hann - búningar, skúringakerra og moppa, væri hægt að endurtaka hann í hvaða stofnun sem er. En það er lítið eftir af sýningunni sem var í Kling og Bang vegna þess að þau eiga enga geymslu.
Melanie: „Ég var neikvæð gagnvart hugmyndinni að fólk af erlendum uppruna væri fengið til að koma og tala 1. desember - á fullveldisafmæli Íslands, en kannski er það bara staðan sem við erum í.“ Darren: „Fullveldið 1918 – þá geisaði frostaveturinn mikli og Spænska veikin – það hefur ekkert breyst!“

 

Verð viðburðar kr: 
0