1. desember 2021 - 9:00

Morgunkorn um myndlist: Lucky 3

Morgunkorn um myndlist: Lucky 3
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Gestir Morgunkorns desembermánaðar er þríeykið Lucky 3 sem samanstendur af listamönnunum Darren Mark, Dýrfinnu Benitu Basalan og Melanie Ubaldo.
Í samtalinu verður sjónum beint að verkum teymisins sem gjarnan kryfur hugmyndir um þjóðerni og þjóðfélag, efnahagslegt og félagslegt misrétti, fordóma og stétt- og valdskiptingu samfélagsins. 

Viðburðurinn fer fram á íslensku. Þátttaka er ókeypis. Skráning HÉR

Lucky 3 var stofnað árið 2019 af Darren Mark, Dýrfinnu Benitu Basalan og Melanie Ubaldo sem eiga það sameiginlegt að vera íslenskir listamenn af filippeyskum uppruna.  Listamannateymið tók þátt í listahátíðinni Sequences síðastliðinn október með verkinu PUTI. Það er í senn gjörningur og innsetning sem þau kalla félagslega kóreógrafíu og endurspeglar ofurraunveruleika kynþáttahlutverka og valdastigveldi og vitnar um leið í átta klukkutíma vinnudag.

Listasafn Reykjavíkur stendur fyrir viðburðardagskránni Morgunkorn um myndlist sem fer fram fyrsta miðvikudag hvers mánaðar í formi morgunfunda. Efni þeirra tengist fjölbreyttum málefnum myndlistar sem mótast af því sem efst er á baugi í faginu og þeim gesti eða gestum sem opna umræðu fundarins. Listamenn, nemar, fagfólk og aðrir áhugasamir eru hvattir til þess að koma og taka þátt í samtali um málefni myndlistar á Morgunkorni um myndlist en viðburðurinn stendur öllum opinn.  

Nánar um listamennina:

Darren Mark (f. 1993) útskrifaðist með BA próf í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2017. Hann leggur stund á fatahönnun, tekur flíkur í sundur og setur þær saman til þess að endurnýta og betrumbæta skapa um leið nýjar flíkur. Darren hefur sýnt á Dutch Design Week í Eindhoven,á Designer’s Nest – tískuvikunni í Kaupmannahöfn og á HönnunarMars í Reykjavík.

Dýrfinna Benita Basalan (f. 1992) er starfandi myndlistarmaður en einnig þekkt sem tónlistarkonan Countess Malaise. Hún útskrifaðist með BA í myndlist og hönnun frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2018. Dýrfinna vinnur út frá mörgum miðlum og hverfast verk hennar oft um sjálfsmynd, samfélag og einsemd. Dýrfinna er í listamannahópnum The Blue Collective, hópi alþjóðlegra listamanna sem eru hinsegin og af jaðarsettum kynþáttum. Hópurinn hefur meðal annars sett upp sýningar í Juliette Jongma galleríi í Amsterdam og í Decoratillier í Brussel í samstarfi við Living Leaving Dacota.

Melanie Ubaldo (f. 1992) útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Í verkum Melanie er myndefni og texti órjúfanleg heild. Sjá má sundurleit málverk sem innihalda texta sem minnir helst á veggjakrot. Textinn vísar í hennar eigin reynslu af fordómafullri hegðun annarra í hennar garð. Verkin afhjúpa valdið sem felst í fordómum og eyðandi áhrifum þeirra á þolendur. Melanie hefur sýnt í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Kling og Bang og Gerðarsafni og listahátíðinni Cycle á Íslandi, Berlín og Argentínu. Jafnframt er verk hennar að finna í safneign Listasafns Reykjavíkur. Melanie á verk á sýningunni Abrakadabra í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi og hún hlaut á dögunum styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur.

Verð viðburðar kr: 
0