2. febrúar 2022 - 9:00

Morgunkorn um myndlist: Hrafnkell Sigurðsson

Morgunkorn um myndlist: Hrafnkell Sigurðsson
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Gestur fyrsta Morgunkorns ársins er myndlistarmaðurinn Hrafnkell Sigurðsson. Hrafnkell sest niður með gestum á 2. hæð Hafnarhússins miðvikudaginn 2. febrúar kl. 9 og spjallar yfir kaffibolla. Morgunkorn um myndlist féll niður í janúar vegna heimsfaraldursins.

Verk Hrafnkels Upplausn var sýnt á yfir 350 skjáum Billboard um alla Reykjavíkurborg í upphafi árs, yfir tímabilið 1.–5. janúar 2022 en Hrafnkell var valinn úr hópi 50 umsækjanda sem myndlistarmaður Auglýsingahlés Billboard. Verkefninu var ætlað að lýsa upp skammdegið og gefa fólki tækifæri á að njóta listar um alla borg og er unnið í samstarfi Billboard, Y gallery og Listasafns Reykjavíkur. Að sýningartíma loknum eignaðist Listasafn Reykjavíkur verkið. 

Viðburðurinn fer fram á íslensku. Þátttaka er ókeypis.

Skráning HÉR

Hrafnkell Sigurðsson (f. 1963) fæddist í Reykjavík og lærði þar, áður en hann flutti fyrst til Maastricht og svo til London árið 1993. Hann lauk MFA-gráðu við Goldsmith‘s College árið 2002. Árið 2007 hlaut Hrafnkell hin virtu Íslensku sjónlistarverðlaun. Hrafnkell hefur nýtt sér ljósmyndun við gerð verka sinna en einnig má þar sjá notkun ýmissa annarra miðla á borð við myndbönd, skúlptúra og innsetningar. Mörg ljósmyndaverka Hrafnkels eru seríur sem fjalla um hversdagsleg málefni og hreyfa við skynjun áhorfandans með persónulegum tengingum. Tærar myndir hans fela í sér hefðir málaralistar og minna áhorfandann á hinn lagskipta raunveruleika bak við myndræna fleti.

Morgunkorn um myndlist fer fram fyrsta miðvikudag hvers mánaðar í formi morgunfunda. Efni þeirra tengist fjölbreyttum málefnum myndlistar sem mótast af því sem efst er á baugi í faginu og þeim gesti sem opnar umræðu fundarins. Listamenn, nemar, fagfólk og aðrir áhugasamir eru hvattir til þess að koma og taka þátt í samtali um málefni myndlistar á Morgunkorni um myndlist en viðburðurinn stendur öllum opinn.  

Verð viðburðar kr: 
0