18. apríl 2023 - 10:00 til 23. apríl 2023 - 17:00

Minning um jökul

Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Nemendur í Hagaskóla sýna afrakstur rannsóknarvinnu tengda jöklum í Hafnarhúsi á Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2023.

Listasafn Reykjavíkur bauð 8. bekk Hagaskóla í heimsókn í Hafnarhúsið, þar sem nemendur skoðuðu sýninguna Иorður og niður: samtímalist á norðurslóðum undir handleiðslu safnkennara og unnu svo listrænt á staðnum úr upplifunum sínum með Maríu Sjöfn Dupuis myndlistarkonu. Í kjölfarið héldu þau rannsóknarvinnunni áfram með kennurunum sínum þeim Brynju Emilsdóttur og  Hjörný Snorradóttur í skólanum.

Sýningin er afrakstur samvinnu, grunnskólanemenda, kennara og listafólks, sem tengja saman listir og náttúruvísindi undir formerkjunum Listrænt ákall til náttúrunnar (LÁN). Listasafn Reykjavíkur hefur opnað dyr sínar fyrir ungum listamönnum á hátíðinni ár hvert og er þetta í annað sinn sem safnið og LÁN vinna saman að sýningarhaldi í tengslum við Barnamenningarhátíð í Reykjavík.

LÁN er þverfaglegt þróunarverkefni úr smiðju Ásthildar Jónsdóttur og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Verkefnið tengir saman náttúrufræði og listgreinar, með sjálfbærni og umhverfisvitund í brennidepli. Lögð er áhersla á að kynnast málefnum náttúrunnar á skapandi og nýstárlegan hátt, með aðferðum list- og verkgreina í samvinnu við listafólk, hönnuði og vísindamenn. Markmið verkefnisins er að styrkja sjálfsmynd og gagnrýna hugsun nemenda og trú þeirra á eigin getu. Verkefnið ýtir undir nýsköpun og stuðlar að starfsþróun kennara með áherslu á skapandi kennsluhætti. Verkefnið styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og eykur áhuga og meðvitund ungs fólks á náttúrufræði og sjálfbærni.

Frítt er inn á safnið fyrir fullorðna í fylgd með börnum yfir hátíðina.