23. nóvember 2019 - 13:00 til 15:00

Málþing – Magnús Pálsson

Málþing – Magnús Pálsson
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Málþingið er haldið í tengslum við sýninguna EITTHVAÐ úr ENGU: Myndheimur Magnúsar Pálssonar.

Ferill Magnúsar Pálssonar einkennist af því hversu víða listamaðurinn hefur komið við og markað spor. Í leikhúsi hefur hann skapað nýstárlegar sviðsmyndir og tilraunakennd leikverk. Í myndlist er hann lykilmaður í hinum miklu breytingum sem urðu á þeim vettvangi á sjöunda og áttunda áratugnum. Sem gjörningalistamaður er Magnús ótvíræður frumkvöðull. Með orðum hefur hann unnið tónlist úr takti tungumálsins. Sem kennari hefur hann haft mikil áhrif á kynslóðir listamanna. Við endurskoðun á eðli listsköpunar varð til nýtt myndmál sem byggðist á gagnrýnni afstöðu til listasögunnar fram að því en opnaði um leið nýjar leiðir til framtíðar.

Þátttakendur munu fjalla um einstaka þætti í ferli listamannsins og málþinginu lýkur með pallborðsumræðum.

FRUMMÆLENDUR:

Jón Proppé, listfræðingur 
Hvað er Magnús að fara?
Jón mun rekja þræði í höfundarverki Magnúsar Pálssonar og huga að þætti hans í alþjóðamyndlist og þróun myndlistar á Íslandi.

Hanna Styrmisdóttir, sjálfstæður ráðgjafi og sýningarstjóri
Á ismamáli
Um bænaköll, passíusálma, fornsögur og farsa; þemu, þræði og sviðsetningu í töluðu óperettunni Kjötkássan og Brasilíufrænkan (1993-94) eftir Magnús Pálsson.

Þráinn Hjálmarsson, tónskáld
Kúakyn í hættu – tónlist tungumálsins í gjörningum Magnúsar
Í erindinu mun Þráinn fjalla um „tónlist tungumálsins“ í gjörningum Magnúsar Pálssonar útfrá verkinu Kúakyn í hættu (2015). Var það frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska hljóðljóðakórnum / Nýló-kórnum og Karlkór alþýðu í Eldborgarsal Hörpu í Apríl 2015 á Tectonics-hátíð Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir, lektor og fagstjóri listfræða við myndlistardeild Listháskóla Íslands
„Það er í loftinu“ – KennsluList Magnúsar Pálssonar
Í kennslu sinni hér á landi og erlendis á árunum 1975 – 1985 gekk Magnús Pálsson út frá því að listnám og kennsla væru listgrein í sjálfu sér er hann nefndi – „geggjuðustu listgreinina“. Ætlunin er að skoða afstöðu hans til listarinnar út frá þeim hugmyndum sem svifu í loftinu í vestrænum listheimi er Nýlistin hélt innreið sína hér á landi og hvernig hún birtist á einstakan hátt í miðlun hans og nálgun við listnám.

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir nam heimspeki við Háskóla Íslands og listheimspeki við Université Paris 1 Panthéon-Sorbonne. Frá árinu 2011 hefur hún starfað sem lektor og fagstjóri listfræða við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Ásamt kennslu- og fagstjórasarfinu hefur hún sinnt ýmsum verkefnum á fagsviðum listfræða og myndlistar, þar á meðal rannsóknum, skrifum, opinberum fyrirlestrum, sýningargerð og ýmsum nefndarstörfum á Norðurlöndum og í Frakklandi. 

Hanna Styrmisdóttir hefur stýrt miklum fjölda myndlistarsýninga og annarra listviðburða á undanförnum tveimur áratugum, m.a. sem listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík 2012-2016, sýningarstjóri Íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum 2007 og framkvæmdastjóri Sjónlistaverðlaunanna 2006. Hún hefur starfað náið með Magnúsi Pálssyni að nokkrum sýningarverkefnum, sér í lagi á árunum 2011-2013 að undirbúningi sýningarinnar Lúðurhljómur í skókassa á Listahátíð í Reykjavík 2013.

Jón Proppé lærði heimspeki en hefur undanfarin þrjátíu ár aðalllega skrifað um myndlist og eftir hann liggja mörg hundruð greina, sýningarskráa og bókarkafla. Þá hefur hann stýrt sýningum á Íslandi og erlendis, kennt við listaskóla, haldi fyrirlestra á ýmsum vettvangi og fjallað um listir og menningu í útvarpi og sjónvarpi.

Þráinn Hjálmarsson, tónskáld, nam tónsmíðar við Konunglega Konservatoríið í Haag og við Listaháskóla Íslands á árunum 2006-2011. Samræða og samstarf er stór hluti af listrænu starfi Þráins og hefur hann þar komið að mörgum ólíkum þverfaglegum samstörfum. Má þar nefna samstörf við listamennina Magnús Pálsson, Sigurð Guðjónsson, Halldór Úlfarsson, Veroniku Sedlmair og Brynjar Sigurðarson.

Fundarstjóri er Markús Þór Andrésson deildarstjóri miðlunar og sýningar hjá Listasafni Reykjavíkur en hann er jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar EITTHVAÐ úr ENGU: Myndheimur Magnúsar Pálssonar ásamt Sigurði Trausta Traustasyni.

Aðgöngumiði á safnið gildir.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.