15. október 2020 - 10:00 til 18. október 2020 - 23:00

Magnús Sigurðarson: ÚPS! 2020

Magnús Sigurðarson: ÚPS! 2020
Staður viðburðar: 
Hafnartorg

Magnús Sigurðarson (f. Reykjavík 1966) stundaði endurreisnarlistnám við Studio Cecil & Graves í Flórens á Ítalíu 1987–88, nam við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands 1988–92 og hlaut MFA gráðu með Fulbright styrk, frá Rutgers University, Mason Gross School of the Arts, í New Jersey, Bandaríkjunum 1997. Magnús hefur búið og starfað í Bandaríkjunum meira eða minna síðan 1994, fyrst í New Brunswick, New Jersey, síðar í Brooklyn, New York en síðastliðin 20 ár í Miami, Flórída. Magnús hefur haslað sér völl í listheiminum sem mjög óvenjulegur og margmiðla myndlistarmaður og hefur á löngum ferli sýnt bæði á íslenskum og alþjóðlegum vettvangi. Emerson Dorsch Gallerí í Miami kynnir og sýnir Magnús.
 
Tilbúin reynsla
Hinn almenni vettvangur hefur breyst. Hvað er reynsla? Upplifun okkar af „raunveruleikanum“ er sífellt að verða meiri tilbúningur, eins og í þeim stílfærðu sjálfsmyndum sem við birtum heiminum, tilbúnum birtingarmyndum dásamlegs lífstíls okkar. Þegar við einangrumst sífellt frá raunverulegri reynslu, eins og á tímum COVID, leitum við í hinn upphafna gerviheim, tilbúna reynslu. Það er ekki nóg með að RAUNVERULEIKINN sé ofmetinn heldur kemst hann hreinlega ekki á blað í reynsluheimi okkar.
 
Listin byggir í auknum mæli á sömu aðföngum og efnivið gervi raunveruleika og hönnuðir og verkfræðingar nota til að skapa eftirmyndir bygginga og borgarhverfa. Í ÚPS! lendir listamaðurinn í samstuði við tilbúna listreynslu. Brotnaði rörið? Skiptir máli hvort áhorfendum finnst þetta vera list? Munu þau örfáu andlit sem leið eiga um göturnar í dag jafnvel líta upp og sjá verkið? Í ÚPS! leikur listamaðurinn sér með hugmyndir um upphafna reynslu og hlutverk listarinnar í því samhengi. Er þetta allt eitt ÚPS! eða getur þetta tilbúna slys skapað raunverulega upplifun hjá áhorfandanum, hvort sem það er listupplifun eða notalegt gufubað …

Listasafn Reykjavíkur efnir á haustdögum öðru sinni til samsýningar á nýrri myndlist í almannarými. Verk átta listamanna birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Um er að ræða gjörninga, inngrip og uppákomur af ýmsu tagi sem kallast á við samfélagslegt rými, opinveran vettvang, stræti, torg og byggingar sem við deilum í sameiningu. Verkin eru meira og minna unnin í óáþreifanlega miðla; Haustlaukarnir skjóta rótum víða og spretta upp við óvæntar aðstæður. Viðfangsefni þeirra átta listamanna sem taka þátt í sýningunni eru fjölbreytt en eiga það öll sameiginlegt að varpa ljósi á eða spyrja spurninga um daglegt umhverfi íbúa borgarinnar og gesta hennar. Þar er fjallað um mörk einka- og almenningsrýmis, eignarhald og frelsi auk þess sem reynt er að fá fólk til þess að staldra við, líta í kringum sig og sjá umhverfið í nýju ljósi. Loks smitast óhjákvæmilega inn í verkin þær breytingar sem orðið hafa á þessu ári og snúa að daglegum samskiptum og venjum á tímum farsóttar. Sum verk eru aðeins flutt einu sinni á meðan önnur eiga sér lengri eða tíðari tilvist. Dagskrá sýningarinnar má kynna sér í sýningarskrá, á samfélagsmiðlum safnsins eða dagskrársíðu þess.

Sýning: 
Verð viðburðar kr: 
0