26. mars 2020 - 8:00 til 23:45

Listaverk dagsins: Ljóshærðir hjúkrunarfræðingar

Birgir Snæbjörn Birgisson (1966), Ljóshærðir hjúkrunarfræðingar / Blonde Nurses, 1998-2000

Listaverk dagsins er Ljóshærðir hjúkrunarfræðingar frá 1998-2000 eftir Birgi Snæbjörn Birgisson (1966).

Birgir Snæbjörn vann seríu málverka af ljóshærðum hjúkrunarfræðingum; verk sem eru yfirlýst og virðist sem daufur liturinn sé að leysast upp af striganum. Litameðferðin getur gefið í skyn að myndefnið sé minning en einnig getur hún vísað í sótthreinsað umhverfi hjúkrunarfræðinga, sem leiðir til hugmyndarinnar um hreinleika. Listamaðurinn lýsir því að í kjölfar ummæla breskrar þingkonu um of marga ljóshærða hjúkrunarfræðinga á breskum sjúkrahúsum hafi áhugi hans vaknað á staðalímyndum um ljósa lokka og norrænt útlit, kynþáttafordómum og hugmyndum um hreinleika.