17. september 2020 - 20:00

Listamenn um listamenn: Rakel McMahon

Listamenn um listamenn: Rakel McMahon. Ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir.
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Athugið að vegna fjöldatakmarkana er skráning nauðsynleg. Þið getið gert það HÉR.

Í tilefni af sýningunni Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION hefur Listasafn Reykjavíkur leitað til nokkurra listamanna til að ganga með gestum um sýninguna og segja frá einstaka verkum og sýningunni út frá sínu sjónarhorni. 

Listamannatvíeykið Gilbert & George eru eitt skapandi afl. Þeir hafa unnið saman í meira en fimm áratugi - einstök verk þar sem daglegt líf og myndlist sameinast í einu mengi. Þeir hafa haft mótandi áhrif á myndlist samtímans og eru þekktir fyrir að ryðja braut gjörningalistar og nálgast einkalíf sitt sem listaverk. Þeir hafa ögrað ríkjandi borgaralegum hugmyndum um smekk og velsæmi og ekki síst stuðlað að breyttum viðhorfum til samkynhneigðra og annarra minnihlutahópa. Sýningin í Hafnarhúsinu veitir yfirgripsmikla sýn yfir feril Gilbert og George. 

Listamaðurinn að þessu sinni er Rakel McMahon (f.1983) sem býr og starfar í Aþenu og Reykjavík. Viðfangsefni og verk Rakelar hverfast oftar en ekki um kyn, kynhlutverk, kynhneigð, staðalímyndir og samfélagslegt valdakerfi. Nálgun hennar og framsetning einkennist gjarnan af tvíræðni, myndlíkingu, húmor og endurmati á viðteknum samfélagsviðmiðum. Rakel hefur verið í nánu samstarfi við aðra listamenn, til dæmis hefur hún unnið gjörninga með skáldinu Bergþóru Snæbjörnsdóttur undir nafninu Wunderkind Collective og svo It´s the Media Not You í samstarfi við myndlistarkonurnar Evu Ísleifs og Katrínu I. Jónsdóttur Hjördísardóttur.

Rakel útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2008, diplóma gráðu í hagnýtri jafnréttisfræði við Háskóla Íslands árið 2009 og M.Art.Ed í listkennslufræðum við Listaháskóla Íslands árið 2014. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum og öðrum menningarviðburðum á Íslandi og víða erlendis. Auk þess sem hún hefur komið að stofnun, skipulagningu og rekstri sýningarverkefna og viðburða á sviði menningar og lista. Hún sat í stjórnum Sequences Listahátíðar og Nýlistasafnsins í Reykjavík.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.