22. október 2020 - 20:00

Listamenn um listamenn: Ragnar Kjartansson – FRESTAÐ

Ragnar Kjartansson, ljósmynd Elísabet Davíðsdóttir
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Viðburðinum hefur verið frestað vegna samkomutakmarkana. 

Hægt er að skrá sig á biðlista með því að senda tölvupóst á listasafn@reykjavik.is.

Athugið að vegna fjöldatakmarkana er skráning nauðsynleg. Þið getið gert það HÉR.

Í tilefni af sýningunni Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION hefur Listasafn Reykjavíkur leitað til nokkurra listamanna til að ganga með gestum um sýninguna og segja frá einstaka verkum og sýningunni út frá sínu sjónarhorni. 

Listamannatvíeykið Gilbert & George eru eitt skapandi afl. Þeir hafa unnið saman í meira en fimm áratugi - einstök verk þar sem daglegt líf og myndlist sameinast í einu mengi. Þeir hafa haft mótandi áhrif á myndlist samtímans og eru þekktir fyrir að ryðja braut gjörningalistar og nálgast einkalíf sitt sem listaverk. Þeir hafa ögrað ríkjandi borgaralegum hugmyndum um smekk og velsæmi og ekki síst stuðlað að breyttum viðhorfum til samkynhneigðra og annarra minnihlutahópa. Sýningin í Hafnarhúsinu veitir yfirgripsmikla sýn yfir feril Gilbert og George. 

Í myndlist sinni leitar Ragnar Kjartansson (f. 1976) fanga í ólíkum listformum. Að þykjast og sviðsetja eru veigamiklir þættir í listrænni tilraun hans til að miðla tilfinningum af einlægni og veita áhorfendum ósvikna upplifun. Verk hans eru gáskafull um leið og þau eru harmræn. Hann hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir úthaldsgjörninga sína og líkt og Gilbert & George tvinnar hann saman lífi og list.

Verk Ragnars hafa verið sýnd á nokkrum virtustu söfnum og hátíðum heims, svo sem Kunstmuseum Stuttgart, Metropolitan Museum of Art New York, Barbican Art Gallery í London, Hirshhorn Museum and Sculpture Garden í Washington DC, Palais de Tokyo í París og New Museum í New York. Árið 2011 hlaut hann Malcom McLaren verðlaunin fyrir verk sitt Bliss sem flutt var á Performa 11 í New York. Tvisvar hafa verk Ragnars verið sýnd á Feneyjatvíæringnum. Árið 2009 var hann fulltrúi Íslands og fjórum árum síðar vakti verk hans verðskuldaða athygli á aðalsýningu tvíæringsins. Ragnar er fæddur í Reykjavík árið 1976. Hann stundaði nám við Listaháskóla Íslands og Konunglegu akademíuna í Stokkhólmi.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.