8. október 2020 - 20:00

Listamenn um listamenn: Einar Falur Ingólfsson - FRESTAÐ

Listamenn um listamenn: Einar Falur Ingólfsson
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Viðburðinum hefur verið frestað í ljósi hertra aðgerða v. COVID-19.

Í tilefni af sýningunni Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION hefur Listasafn Reykjavíkur leitað til nokkurra listamanna til að ganga með gestum um sýninguna og segja frá einstaka verkum og sýningunni út frá sínu sjónarhorni. 

Listamannatvíeykið Gilbert & George eru eitt skapandi afl. Þeir hafa unnið saman í meira en fimm áratugi - einstök verk þar sem daglegt líf og myndlist sameinast í einu mengi. Þeir hafa haft mótandi áhrif á myndlist samtímans og eru þekktir fyrir að ryðja braut gjörningalistar og nálgast einkalíf sitt sem listaverk. Þeir hafa ögrað ríkjandi borgaralegum hugmyndum um smekk og velsæmi og ekki síst stuðlað að breyttum viðhorfum til samkynhneigðra og annarra minnihlutahópa. Sýningin í Hafnarhúsinu veitir yfirgripsmikla sýn yfir feril Gilbert og George. 

Einar Falur Ingólfsson (f. 1966) er fæddur í Keflavík en býr og starfar í Reykjavík. Einar hefur unnið á Morgunblaðinu frá 1981 sem ljósmyndari, fréttaritari, menningarblaðamaður og bókmenntarýnir en einnig sinnt listgrein sinni, ljósmyndun, með margvíslegum hætti. Einar Falur sótti Gilbert & George heim á Fournierstreet 12 í London í sumar og hefur frá ýmsu að segja um líf þeirra á þessum skrýtnu tímum, og list sem samanstendur að mestu af ljósmyndum.

Einar er ljósmyndari frá School of Visual Arts í New York en hefur auk þess BA-gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur haldið margar sýningar á verkum sínum, hérlendis og erlendis, verið sýningarstjóri að ljósmyndasýningum, ritstýrt eða komið að gerð ljósmyndabóka, sjálfur skrifað bækur, kennt áfanga í ljósmyndun við hina ýmsu skóla og haldið fyrirlestra víða um heim. Í meira en áratug hefur hann unnið að nokkrum langtímaljósmyndaverkum sem hafa verið gefin út í bókum og verið á sýningum.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.