28. júlí 2016 - 20:00

Listamannaspjall: Rósa Sigrún Jónsdóttir og Anna Rósa Róbertsdóttir

Grös eftir Rósu Sigrúnu Jónsdóttur
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Myndlistarkonan Rósa Sigrún Jónsdóttir og grasalæknirinn Anna Rósa Róbertsdóttir ræða við gesti um heilnæmi handverks og gróðurs. Verk Rósu Sigrúnar, Grös, á sýningunni RÍKI - flóra, fána, fabúla samanstendur af hekluðum og lituðum lækningajurtum sem finnast í íslenskri náttúru. 

Fyrirmyndir hinna hekluðu og lituðu blóma og laufa í verki Rósu Sigrúnar eru jurtir sem finnast í íslenskri náttúru. Þar má finna yfir tuttugu ólíkar tegundir lækningajurta sem öldum saman hafa verið nýttar til heilsubótar. Listakonan hefur sérhæft sig í gerð verka sem byggjast á sígildu handverki og krefjast tíma og natni. Hún þekkir þannig á eigin skinni kenningar um jákvæð áhrif tiltölulega einhæfrar en þó skapandi vinnu, og þekkt er að mörg vandamál hafa verið leyst yfir handavinnu. Í verkinu Grös sameinar hún þetta tvennt, heilnæmi handverks og gróðurs. Verkið var unnið í samstarfi við hóp handverkskvenna sem lögðu fram vinnu sína við að hekla smágerð laufblöð, blómknappa og stilka.

Grasalækningar byggjast á alþýðuvitneskju sem varðveist hefur mann fram af manni. Hverri jurt fylgja ýmsir eiginleikar sem taldir eru gera gagn, inn- og útvortis. Handverkskonurnar sem unnu saman að verkinu deildu ýmsum sögum, gömlum og nýjum, sem Rósa Sigrún safnaði. Kom þá í ljós að ekki er einungis um að ræða seyði og smyrsl gegn forneskjukvillum heldur eru margar íslenskar jurtir taldar búa yfir áður óþekktum eiginleikum sem koma að gagni við nýsköpun á sviði lyfjafræðinnar. 

Þátttakendur við gerð verksins ásamt Rósu Sigrúnu: Ásdís Birgisdóttir, Áslaug Anna Jónsdóttir, Ásthildur Jónsdóttir, Bryndís Björgvinsdóttir, Erla Sigtryggsdóttir, Halldóra Jónsdóttir, Heiðrún Kristjánsdóttir, Helga Hilmarsdóttir, Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Hjördís Hannesdóttir, Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir, Kristín Svavarsdóttir, Lene Zachariassen, Margrét Ólöf Ívarsdóttir, Sigríður Haraldsdóttir, Sigrún Helgadóttir, Sophie Schoonjans og Steinunn M. Steinars.

Anna Rósa hefur starfað við ráðgjöf á eigin stofu við grasalækningar í rúma tvo áratugi ásamt því að halda fjölda námskeiða um lækningajurtir og smyrslagerð. Hún tínir sjálf allar jurtir sem hún notar og hrærir sjálf krem og smyrsl. Anna Rósa hefur gefið út bók um íslenskar lækningajurtir, á íslensku og ensku, og einnig  matreiðslubókina Ljúfmeti úr lækningajurtum.

Viðburðurinn fer fram á íslensku. Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Menningarkorts Reykjavíkur.

 

 

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.