12. mars 2022 - 11:00

Leikum að list: Morgunverðarklúbburinn – þátttökugjörningur fyrir fjölskyldur

Morgunverðarklúbburinn: Þátttökugjörningur fyrir fjölskyldur
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Morgunverðarklúbburinn er þátttökugjörningur sem unnin er sérstaklega fyrir listahátíðina Gjörningaþoku af Ásrúnu Magnúsdóttur dansara og listhópnum Litlu systur í samstarfi við fjölskyldudagsskrána Leikum að list.

Upplýsingar um skráningur koma síðar.

Klúbburinn býður allskonar fjölskyldur velkomnar til þátttöku og samveru. Allar fjölskyldur, af öllum stærðum og gerðum; afar, ömmur og barnabörn, systkini, fjarskylt frændfólk, mæðgur, feðgar, stjúpforeldrar og stjúpbörn eða hvaða fjölskyldumynstur sem er. 

Fjölskyldur fá tækifæri til að gerast plötusnúðar, húðflúr-listamenn og dansarar þar sem hver fjölskylda fær að spila valda tónlist sem einkennir heimilislífið - uppáhaldslögin eða jafnvel frumsamið efni.

Morgunverðarklúbburinn býður þátttakendum upp á léttan morgunverð en að sjálfsögðu er líka í boði að mæta í klúbbinn og fylgjast með, dansa saman og drekka kaffi… eða djús!

Ásrún Magnúsdóttir er dansari og danshöfundur. Hún leggur áherslu á víkka út út hugmyndir um dans og kóreógrafíu. Hún hefur lagt sig eftir því að vinna með fólki sem hugsar ekki mikið um dans og fengið það til þess að dansa. Hennar markmið er að byggja undir og lyfta röddum sem sjaldan heyrast og beina sviðsljósinu í nýjar og óhefðbundnar áttir. Ásrún hefur mikla reynslu og sérstaka unun af því að vinna með ungu fólki og hefur komið að ýmsum listrænum verkefnum því tengdu, t.d. Teenage Songbook of Love and sex, Hlustunarpartý og GRRRRRLS. Verk Ásrúnar hafa verið sýnd víðsvegar um Evrópu á ólíkum hátíðum og í leikhúsum.

Í samvinnu við Reykjavík Dance Festival hefur Ásrún sett á laggirnar óhefðbundinn skóla fyrir ungt fólk - sýningarstjóra, listamenn og aktvísta framtíðarinnar. Sá „skóli“ kallast Litla systir og verða það „nemendur" hans sem sjá um Morgunverðaklúbbinn. Það eru Anna Guðrún Tómasdóttir, Freyr Yrkir Stef Steinþórsson, Magdalena Arinbjarnardóttir, Marta Ákadóttir, Natalía Lind Hagalín og Úlfhildur L.

Ókeypis fyrir börn fram til 18 ára aldurs. Dagskráin er miðuð að því að börn komi í fylgd fullorðinna og að heimsóknin sé þannig skemmtileg og skapandi samvera milli kynslóða.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.