25. mars 2021 - 18:00

Leiðsögn um Klambratún – listaverk og umhverfi FRESTAÐ

Klambratún, teikning: Erla María Árnadóttir
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

VIÐBURÐINUM HEFUR VERIÐ FRESTAÐ VEGNA HERTRA SAMKOMUTAKMARKANA. GÓÐAR STUNDIR!

Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur, og Elízabet Guðný Tómasdóttir, landslagsarkitekt hjá Landslagi, leiða gesti um listaverk og umhverfi Klambratúns. 

Leiðsögnin hefst við verk Sigurjóns Ólafssonar Minnismerki um Nínu Tryggvadóttur fyrir framan Kjarvalsstaði.

Viðburðurinn er hluti af dagskrá Listasafns Reykjavíkur á löngum fimmtudegi og er þátttaka gestum að kostnaðarlausu, en vegna fjöldatakmarkana er skráning nauðsynleg HÉR.

Í leiðsögninni verður rætt um samspil listaverka og umhverfis í ljósi sögunnar og þeirrar þróunar og breytinga sem framundan eru á svæðinu. Meðal framkvæmda sem eru í vinnslu er nýtt torg sem tengir betur Kjarvalsstaði og Klambratún. Fyrirhugaðar eru framkvæmdir sem snúa að auknu aðgengi að nýju útisvæði sunnan við Kjarvalsstaði og að færa til stíga með það að markmiði að auka aðgengi fyrir alla.

Klambratún, sem einnig hefur borið heitið Miklatún, er með stærri almenningsgörðum í Reykjavík og setur mikinn svip á Hlíðahverfið. Túnið afmarkast af Hringbraut, Rauðarárstíg, Flókagötu og Lönguhlíð en svæðið er nefnt eftir býlinu Klömbrum. Klambratún er einn stærsti almenningsgarðurinn sem var sérstaklega hannaður sem hluti af aðalskipulagi borgarinnar en hönnun hans hófst upp úr 1960. Klambratún skiptist í stórar grasflatir, trjálundi og leik- og íþróttasvæði og er í dag vinsælt útivistarsvæði. Kjarvalsstaðir, sem hýsir sýningarrými Listasafns Reykjavíkur, er staðsett við norðurenda Klambratúns. Meðal listaverka á Klambratúni eru Rek (1990) eftir Kristin E. Hrafnsson og Reykjavíkurvarðan (1970) eftir Jóhann Eyfells sem verða skoðuð sérstaklega í leiðsögninni.

Eftir leiðsögnina er tilvalið að tylla sér inn á veitingastaðinn Klambrar Bistro sem er opinn til kl. 22.00 þetta kvöld. 

Fimmtudagurinn langi
Fjöldi safna og sýningastaða býður upp á lengdan opnunartíma síðasta fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Þá er tilvalið að bregða sér af bæ og skoða fjölbreyttar listasýningar, kíkja við á vinnustofum listamanna, heimsækja listamannarekin rými, gallerí og söfn – og upplifa líflega myndlist í miðborginni. 

Verð viðburðar kr: 
0