28. september 2023 - 20:00

Leiðsögn um Kjarval og 20. öldina

Edda Halldórsdóttir
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Á fimmtudaginn langa kl. 20.00 á Kjarvalsstöðum verður Edda Halldórsdóttir, sýningarstjóri og verkefnastjóri skráninga, með leiðsögn um sýninguna Kjarval og 20. öldin: Þegar nútíminn lagði að.

Á sýningunni getur að líta myndlistarverk íslenskra listamanna frá um sex áratuga skeiði eftir aldamótin 1900. Verkin spanna það tímabil sem listmálarinn Jóhannes S. Kjarval var starfandi. Þegar litið er á feril Kjarvals og hann speglaður í verkum samtíðarmanna hans sést hvernig myndlistin tekur breytingum og þróast.

Verk hans og annarra listamanna á sýningunni eru úr safneign Listasafns Reykjavíkur að undanskilinni Fjallamjólk Kjarvals sem er eitt þekktasta verk listamannsins og er fengið að láni frá Listasafni ASÍ.

Síðasti fimmtudagur mánaðarins er Fimmtudagurinn langi! Opið frá kl. 10-22.00 í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum.

Fjöldi safna og sýningastaða býður upp á lengdan opnunartíma síðasta fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Þá er tilvalið að bregða sér af bæ og skoða fjölbreyttar listasýningar.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.